BSRB kallar eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. Í ályktun um dagvistunarmál sem samþykkt var á aðalfundi bandalagsins í gær segir að það sé óásættanlegt að foreldrar þurfi að bíða tekjulausir í óvissu þar sem engin úrræði séu til staðar.
Almennt eru það mæður sem brúa bilið með því að vera lengur frá vinnu en feðurnir sem stuðlar að misrétti kynjanna á vinnumarkaði. Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að lögfesta rétt barna til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi samhliða lengingu orlofsins í 12 mánuði, hækkun hámarksgreiðslna og því að greiðslur að 300 þúsund krónum á mánuði verði ekki skertar.
Fundurinn ályktaði líka um húsnæðismál og kallaði eftir því að stjórnvöld stígi næsta skrefið í uppbyggingu á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Ljúka verði greiningu á framboði og eftirspurn húsnæðis, beina húsnæðisstuðningi til þeirra sem þurfi mest á honum að halda og tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis. Þá telur fundurinn að styðja verði við uppbyggingu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.
BSRB stofnaði ásamt Alþýðusambandi Íslands Bjarg íbúðafélag sem gefa mun félagsmönnum kost á öruggu húsnæði á sanngjörnu verði. Lögum samkvæmt má félagið aðeins leigja tekjulágu launafólki íbúðir. Því er mikilvægt að stíga næsta skref og auðvelda þeim sem ekki eru innan tekjuviðmiðsins að komast í öruggt húsnæði.
Hér að neðan má sjá allar ályktanir aðalfundar BSRB sem haldinn var 24. maí 2018.
Ályktun aðalfundar BSRB um dagvistunarmál
Aðalfundur BSRB kallar eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða sveitarfélaga. Það er óásættanlegt að foreldrar, þurfi að bíða í óvissu tekjulausir þar sem engin úrræði eru til staðar. Almennt eru það mæður sem bera ábyrgðina af því að brúa bilið sem stuðlar að misrétti kynjanna á vinnumarkaði. Lögfesta þarf rétt barna til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi samhliða lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði, hækkun hámarksgreiðslna og að greiðslur upp að 300.000 kr. verði ekki skertar.
Ályktun aðalfundar BSRB um húsnæðismál
Aðalfundur BSRB fagnar uppbyggingu Bjargs íbúðafélags sem mun gefa tekjulágum félagsmönnum aðildarfélaga bandalagsins kost á öruggu leiguhúsnæði á sanngjörnu verði. Fundurinn kallar eftir því að stjórnvöld stígi næsta skref í uppbyggingu á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Í ljósi núverandi stöðu er brýnt að öll sveitarfélög ljúki greiningu á framboði og eftirspurn húsnæðis hvort heldur sem er til eigu eða leigu. Það er forsenda þess að beina megi húsnæðisstuðningi til þeirra sem þurfa mest á honum að halda og tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis og stuðla að lægri húsnæðiskostnaði. Þá þarf að styðja við uppbyggingu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og geta boðið fólki sem er með tekjur yfir viðmiðum Bjargs upp á langtímaleigu á sanngjörnu leiguverði.
Ályktun aðalfundar BSRB um félagslegan stöðugleika
Aðalfundur BSRB fagnar uppbyggilegu samtali aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld undanfarna mánuði og minnir á mikilvægi þess að samtalið leiði af sér raunverulegar breytingar fyrir launafólk. Samtalið verður að leiða til þess að efnahagslegur stöðugleiki kallist á við félagslegan stöðugleika með uppbyggingu á samfélagi með jöfnuðinn að leiðarljósi.
Ályktun aðalfundar BSRB um styttingu vinnuvikunnar
Aðalfundur BSRB fagnar þeim tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar sem ríkið og Reykjavíkurborg hafa staðið fyrir ásamt BSRB. Niðurstöður úr verkefnunum sýna gagnkvæman ávinning launafólks og atvinnurekenda af því að stytta vinnutíma starfsmanna. Fleiri vinnustaðir hafa stytt vinnuvikuna utan við tilraunaverkefnin og eru framkomnar niðurstöður einnig jákvæðar. Aðrir atvinnurekendur eru hvattir til að gera tilraunir þar um í þeim tilgangi að auka sveigjanleika milli atvinnu- og einkalífs og auka starfsánægju starfsfólks. Fundurinn krefst þess að vaktavinnuhópar séu hluti af tilraunaverkefnum sem þessum enda þörfin fyrir styttingu vinnutíma afar brýn hjá vaktavinnufólki vegna neikvæðra afleiðinga þess vinnutímafyrirkomulags.
Ályktun aðalfundar BSRB um heilbrigðismál
Aðalfundur BSRB krefst þess að ríkið standi við margítrekuð loforð um að hlúa að heilbrigðiskerfinu, heilbrigðisstarfsfólki og þeim sem eiga að njóta heilbrigðisþjónustunnar, þannig að þjóðin geti verið stolt af öflugu, réttlátu og gjaldfríu heilbrigðiskerfi til framtíðar. Móta verður heildarstefnu um heilbrigðiskerfið og líta þar sérstaklega til þeirrar þróunar sem fyrirsjáanleg er með fjölgun aldraðra á næstu árum.