Þær samfélagsbreytingar sem eru að verða vegna loftslagsbreytinga, aðgerða til að stemma stigu við henni, sjálfvirknivæðingar og fleiri þátta munu hafa áhrif á neyslu og störf til frambúðar og mikilvægt að tryggja réttlát umskipti vegna þeirra. Þetta kemur fram í umsögn BSRB um 2. útgáfu aðferðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum.
BSRB leggur ekki mat á einstaka aðgerðir sem stjórnvöld áforma að leggja í, trúverðugleika þeirra eða áhrif á losun. Áhersla bandalagsins er á réttlát umskipti (Just Transition).
„Þær samfélagsbreytingar sem nú eru að verða vegna loftslagsbreytinga, loftslagsaðgerða, sjálfvirknivæðingar, stafrænna lausna og lýðfræðilegra breytinga munu hafa áhrif á framleiðslu, neyslu og störf til frambúðar. Mikilvægt er að skiptingin af kostnaði, byrðum og ágóða þessara breytinga verði réttlát og að nauðsynlegar aðgerðir og mótvægisaðgerðir verði mótaðar með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja félagslegan stöðugleika og stuðning almennings við nauðsynlegar aðgerðir,“ segir meðal annars í umsögn bandalagsins.
BSRB er, ásamt Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi háskólamanna, í samstarfi við systursambönd sín á Norðurlöndunum og í Þýskalandi um greiningu á áhrifum loftslagsbreytinganna og afleiðingunum af þeim aðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til eigi markmið stjórnvalda að nást á vinnumarkað og efnahag. Tillögur sem verða til úr þessu samstarfi verða kynntar síðar í haust.
BSRB krefst aðkomu að vinnu við aðgerðaáætlun
Í umsögn BSRB er kallað eftir aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að aðgerðaáætlun stjórnvalda. Í áætluninni segir að hún verði rýnd með tilliti til áhrif aðgerða á mismunandi tekjuhópa og þjóðhagsleg áhrif aðgerða. „Aðkoma verkalýðshreyfingarinnar er algjör forsenda þess að við getum tekist á við þær áskoranir og óvissu sem fylgja loftslagbreytingum og tryggt réttlát umskipti sem sameina loftslagsaðgerðir, sjálfbæra velsæld og góð störf. BSRB gerir kröfu um þátttöku bandalagsins í vinnu við áætlun stjórnvalda um réttlát umskipti,“ segir í umsögn bandalagsins.