Tekjur allt að 300 þúsund krónum skerðast ekki í fæðingarorlofi, sem verður tólf mánuðir en ekki níu, verði farið að tillögu starfshóps um mótun tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum. Hópurinn, sem BSRB átti sæti í, skilaði niðurstöðum sínum til félags- og húsnæðismálaráðherra í dag.
Birkir Jón Jónsson, formaður hópsins, afhenti Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tillögur hópsins í Velferðarráðuneytinu í gær.
Í frétt á vef Velferðarráðuneytisins kemur fram að starfshópurinn hafi lagt til að hámarksgreiðslur foreldris úr Fæðingarorlofssjóði verði 600 þúsund krónur á mánuði. Allir fulltrúar í hópnum utan við einn vilja að tekjur allt að 300 þúsund krónur á mánuði skerðist ekki.
Í dag er fyrirkomulagið með þeim hætti að foreldrar fá 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili. Þak á greiðslur eru 370 þúsund krónur á mánuði.
Starfshópurinn leggur til að fæðingarorlofið verði lengt úr níu mánuðum í tólf, en að það gerist í áföngum. Hópurinn leggur til að hvort foreldri um sig fái fimm mánuði, en að auki fái foreldrarnir tvo mánuði til viðbótar sem þau ráða hvort þeirra tekur. Hópurinn leggur til að stefnt verði að því að mánuðunum tólf verði skipt til helminga, þannig að hvert foreldri fái sex mánuði. Lagt er til að lenging fæðingarorlofs komi til framkvæmda í áföngum frá 1. janúar 2019 til 1. janúar 2021.
Vilja leikskóladvöl að loknu fæðingarorlofi
Þá telur starfshópurinn mikilvægt fyrir jafnrétti kynjanna að hægt verði að bjóða börnum dvöl á leikskóla eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Lagt er til að stofnuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga sem vinni þarfagreiningu og aðgerðaáætlun um leiðir, þar með talið fjármögnun, sem gerir mögulegt að bjóða öllum börnum dvöl á leikskóla við tólf mánaða aldur frá 1. janúar 2021.
Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá BSRB, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Formaður hópsins var Birkir Jón Jónsson. Allir fulltrúarnir standa að baki skýrslu hópsins en ekki náðist samstaða um allar tillögurnar, líkt og fram kemur í fyrirvörum með lokaskýrslu.
Hægt er að kynna sér tillögur starfshópsins á vef ráðuneytisins.