Jafnréttisnefnd BSRB býður til hádegisverðarfundar um mismunun á íslenskum vinnumarkaði þann 11. mars n.k. kl 11:50-13.
Á fundinum flytur Ingibjörg Elíasdóttir, lögfræðingur á Jafnréttisstofu, erindið „Ekki benda á mig...“ – Um mismunun á íslenskum vinnumarkaði. Í erindi sínu mun Ingibjörg fjalla um nýja rannsókn sem Jafnréttisstofa lét gera um jafnrétti og mismunun á vinnumarkaði.
Um nokkurt skeið hefur staðið til að innleiða tvær tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun og er sú vinna vel á veg komin. Jafnréttisstofa tekur þátt í verkefni með Mannréttindaskrifstofu Íslands og Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði sem lýtur m.a. að því að kortleggja mismunun á íslenskum vinnumarkaði og kanna þekkingu stjórnenda á mismununartilskipununum tveimur. Verkefni þetta er styrkt af Progress-sjóði Evrópusambandsins. Í erindinu mun Ingibjörg gera grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum stjórnenda fyrirtækja með fleiri en 25 starfsmenn til jafnréttismála og mismununar á vinnumarkaði.
Fundurinn verður í fundarsal á 1. hæð í BSRB-húsinu Grettisgötu 89 og boðið verður upp á léttar veitingar. Allir eru velkomnir en fundargestir eru vinsamlega beðnir um tilkynna þátttöku fyrir hádegi mánudaginn 10. mars með því að senda póst á asthildur@bsrb.is