Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fjallar um styttingu vinnuvikunnar á Kjarnanum í dag. Sonja segir lengd vinnuvikunnar, sem víðast hvar er 40 stundir á viku, ekki náttúrulögmál heldur þvert á móti séu engin vísindaleg rök fyrir henni né byggi hún á þekkingu um hvað geti skilað bestu mögulegu niðurstöðu fyrir einstaklinginn, fjölskylduna, vinnustaðinn og samfélagið.
Fjöldi innlendra sem erlendra rannsókna sýnir að það er vel hægt að stytta vinnuvikuna án þess að það komi niður á afköstum hjá starfsfólki í dagvinnu og reynslan hér á landi eftir að vinnutímanum var breytt í vaktavinnu sýnir að kostnaður hefur haldist innan þess ramma sem settur var í upphafi. "BSRB hefur verið, og verður áfram, sannfært um gildi styttri vinnuviku fyrir vinnustaði, atvinnurekendur, launafólk og fjölskyldur þeirra sem og samfélagið allt. Ávinningurinn er bætt heilsa og öryggi starfsfólks, aukin lífsgæði, aukið jafnrétti kynjanna, minnkað kolefnisfótspor og hamingjusamari þjóð. Allt sem þarf er hugrekki til að breyta úreltum hugmyndum um vinnutímann, endurskipulagning á því hvernig við vinnum og ríkt samráð og samvinna stjórnenda og starfsfólks þar um. Umræðan á ekki að snúast um hvort rétt sé að stytta vinnuvikuna, heldur hversu stutt vinnuvikan geti mögulega orðið", segir Sonja.
Lesa má greinina í heild hér.