Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) hyggst vinna jafnlaunakönnun fyrir Ísafjarðarbæ í mars-apríl að sögn Sædísar Maríu Jónatansdóttur, ráðgjafa hjá fjölskyldusviði sveitarfélagsins, sem sér um að safna gögnum saman fyrir RHA sem nota á í könnunina. „Þetta er umfangsmikið verk en það er í vinnslu,“ sagði Sædís í samtali við vefinn bb.is.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti fyrir nokkru að taka tilboði þeirra um framkvæmd könnunarinnar í október á síðasta ári. Verkefnið felst í skoðun á launakjörum starfsmanna sveitarfélagsins með hliðsjón af kynferði og megin markmiðið er að greina laun starfsmannanna og helstu áhrifaþætti sem og að bera saman laun og kjör karla og kvenna sem starfa hjá Ísafjarðarbæ. Sjá má fréttina í heild sinni á vef bb.is.
Þess er vert að geta að samkvæmt kjarakönnun BSRB hefur óútskýrður launamunur milli karla og kvenna innan BSRB, aukist hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur úr 9,7% í 13,3%. Þá mældist kynbundinn launamunur á Vesturlandi og Vestfjörðum 16,6% árið 2013, samanborið við 5,7% á Austurlandi og Norðurlandi, 10,4% á höfuðborgarsvæðinu og 20% á Suðurlandi og Suðurnesjum.
BSRB fagnar því að Ísafjarðarbær skuli fylgja fordæmi nokkurra annarra bæjarfélaga og ráðast í heildarúttekt á launamálum bæjarfélagsins með það að markmiði að útrýma kynbundnum launamun og hvetur jafnframt önnur sveitarfélög til að gera slíkt hið sama.