Kvennaverkfall 24. október


24. október árið 1975 fóru konur í verkfall til að sýna fram á hversu mikilvæg launuð og ólaunuð störf þeirra væru fyrir samfélagið. Dagurinn markaði spor í sögu íslenskrar og alþjóðlegrar kvennabaráttu. Það voru samtök kvenna og stéttarfélög sem stóðu að Kvennafrídeginum sem talið er að allt að 90% kvenna á Íslandi hafi tekið þátt í verkfallinu og 25.000 konur safnast saman á stærsta útifundi sögunnar á þessum tíma.

Síðan þá hefur Kvennafrí verið haldið fimm sinnum (1985, 2005, 2010, 2016 og 2018). Frá Kvennafríi 1985 hefur ekki verið um heils dags verkfall að ræða heldur hefur verið gengið út á ákveðnum tíma dags til að vekja athygli á launamisrétti kynjanna.

Þótt mikið hafi áunnist frá árinu 1975 hefur ekki verið orðið við megin kröfu Kvennafrís: Að störf kvenna séu metin að verðleikum. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. Konur sem starfa við ræstingar, umönnun og menntun barna, þjónustu við veikt fólk, fólks með fötlun og aldraðra eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Þá birtist kerfisbundið misrétti í því að 40% kvenna hafa orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, að trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir meira ofbeldi en aðrir hópar. Og svona mætti lengi telja.

Því blása á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks, þar á meðal BSRB, til heils dags Kvennaverkfalls 24 .október næstkomandi. Allar konur og kynsegin fólk eru hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf í heilan dag og krefjast jafnréttis í krafti samstöðunnar. 

Yfirskrift verkfallsins þessu sinni er Kallarðu þetta jafnrétti?” og vísar til þess að konur og kynsegin fólk fái ítrekað þau skilaboð að vegna þess að Ísland sé fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttismálum, megi þau ekki vera reið yfir því ójafnrétti sem viðgengst hér enn - og eigi að bíða róleg eftir að ástandið batni. En við bíðum ekki lengur!

Í Reykjavík verður haldinn stórviðburður á Arnarhóli kl 14:00 þar sem konur og kvár í verkfalli á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni safnast saman í baráttuhug. Fleiri viðburðir eru í smíðum víðsvegar um Vestur, Norður og Austurland.

Megin þemu dagsins eru kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn konum og kynsegin fólki og kerfisbundið vanmat á störfum kvenna.

Hvernig tekur þú þátt í Kvennaverkfalli?

Öll sem geta eiga að leggja niður störf; ekki mæta til vinnu, ekki annast börnin s.s. gefa þeim mat eða smyrja nesti né sinna veikum fjölskyldumeðlimum heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim eða vin til að standa vaktina. Konur og kvár sleppa þá öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu.

Þátttaka á samfélagsmiðlum:

Facebook síða Kvennaverkfalls
Facebook viðburður Kvennaverkfalls
Myllumerki: #kvennaverkfall
Vefur: www.kvennaverkfall.is
Merki Kvennaverkfallsins:


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?