Þolendur áreitni og áreitis leiti til stéttarfélaga

Stéttarfélög gæta hagsmuna launafólks þegar kemur að áreiti, áreitni og ofbeldi eins og í öðrum málum.

Stéttarfélög taka á málum sem upp koma vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldi með sama hætti og önnur mál þar sem brotið er á réttindum starfsmanna. BSRB hefur í kjölfar #metoo byltingarinnar hvatt starfsmenn til að leita til stéttarfélaga sinna með slík mál.

„Kynbundið áreiti, kynferðisleg áreitni og ofbeldi eru brot, og eins og í öðrum brotum gegn starfsmönnum geta þeir leitað til stéttarfélaganna eftir stuðningi og ráðgjöf,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, í viðtali við Samfélagi á Rás 1 í dag.

„Svo er misjafnt hvort það þurfi að fylgja málinu eftir gagnvart atvinnurekanda. Oftast nær er þetta samtal þar sem leitað er eftir bestu leiðinni fyrir einstaklinginn,“ sagði Sonja. Í einhverjum tilvikum fari svona mál ekki réttar leiðir á vinnustöðunum og þá þurfi að beita öðrum aðferðum til að fá rétta niðurstöðu fyrir einstaklinginn.

Stéttarfélögin eiga að fylgja því eftir að atvinnurekandinn fari að lögum og reglum í þessum málum eins og öðrum, halda utan um starfsmennina og gæta hagsmuna þeirra. Reglurnar sem atvinnurekendur þurfa að fara eftir eru afar skýrar.

Í þeim lögum sem gilda um kynbundið áreiti, kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er einnig skýrt að starfsmönnum sem verða varir við brot er skylt að láta vita af þeim, þó þau snúi ekki að þeim. Það þýðir að verði starfsmaður vitni að atviki þar sem samstarfsmaður er áreittur, ber viðkomandi að láta yfirmann sinn vita.

Öllum líði vel á vinnustaðnum

„Markmiðið með þessum reglum er að öllum líði vel á vinnustaðnum og allir séu öruggir. Það skiptir mjög miklu máli hvernig sá sem verður fyrir hegðuninni upplifir hana,“ sagði Sonja í viðtali við Rás 1 í dag.

„Það er ekki annarra að draga úr því eða hafa efasemdir um það enda alltaf upplifun þess sem verður fyrir sem ræður úrslitum um það hvort atvik er túlkað sem kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni,“ sagði hún.

Þetta þýðir að jafnvel þó atvinnurekandi telji að ekki sé um brot að ræða ber honum samt að vinna úr atvikinu þannig að starfsmönnum líði vel á vinnustaðnum.

BSRB hefur, ásamt öðrum, gefið út bæklinginn Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum þar sem farið er nánar yfir þessi mál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?