Stjórn Sameykis kallar eftir því að uppsögn Icelandair á trúnaðarmanni Eflingar á Reykjavíkurflugvelli verði dregin til baka og að Icelandair tryggi innanhússþekkingu á mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum og sambandi þeirra við launafólk og stéttarfélög í landinu.
Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin samþykkti á fundi sínum í gær. „Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu mótmælir harðlega uppsögn trúnaðarmanns Icelandair ehf. á grundvelli laga um réttindi og skyldur trúnaðarmanns á vinnustað þar sem óheimilt er að segja upp trúnaðarmanni sem starfar í trúnaðarsambandi fyrir hönd launafólks og stéttarfélags á vinnustað,“ segir meðal annars í ályktuninni.
Þar segir jafnframt að með uppsögninni hafi Icelandair brotið lög um réttindi trúnaðarmannsins og komið í veg fyrir að hann geti rækt skyldur sínar gagnvart launafólki og gætt réttinda samstarfsfólks síns.
Stjórn Sameykis mótmælir einnig framgöngu Samtaka atvinnulífsins í málinu, en samtökin reka málið fyrir hönd Icelandair og framkvæmdastjóri samtakanna hefur lýst stuðningi við uppsögnina.
„Það er skylda yfirmanna viðkomandi trúnaðarmanns hjá Icelandair ehf að vera upplýstir um réttindi, skyldur og hlutverk trúnaðarmanna á vinnustöðum. Ekki gengur að bera fyrir sig þekkingarleysi á hlutverki þeirra í eigin fyrirtæki,“ segir í ályktun stjórnar Sameykis. „Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að uppsögnin verði dregin til baka og Icelandair ehf. tryggi innanhússþekkingu á mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum og sambandi þeirra við launafólk og stéttarfélög í landinu.“