Sandra Bryndísardóttir Franks nýr formaður SLFÍ

Sanda Bryndísardóttir Franks tók við blómum frá fráfarandi formanni, Kristínu Á. Guðmundsdóttur.

Sandra Bryndísardóttir Franks var kjörin nýr formaður Sjúkraliðafélags Íslands (SLFÍ) í kosningu sem lauk klukkan 13 í dag. Fráfarandi formaður félagsins, Kristín Á. Guðmundsdóttir, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Sandra, sem er sjúkraliði og hefur lokið meistaranámi í stjórnsýslufræðum og lögfræði, fékk um 71 prósent greiddra atkvæða. Sigurlaug Björk J. Fjeldsted hlaut um 18 prósent atkvæða og Guðrún Lárusdóttir um 8 prósent, eins og sagt er frá á vef SLFÍ.

Nýr formaður mun taka við af Kristínu Á Guðmundsdóttur, sem gegnt hefur formennsku Sjúkraliðafélags Íslands síðustu 30 ár, á 27. fulltrúaþingi félagsins 15. maí næstkomandi.

BSRB mun áfram njóta krafta Kristínar, sem mun sitja áfram í stjórn bandalagsins fram að þingi þess næsta haust.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?