Miklar líkur á endurskoðun kjarasamninga

Allar líkur eru á því að ákvörðun kjararáðs að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands um tugi prósenta muni hafa alvarlegar afleiðingar á vinnumarkaði, sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í sjónvarpsþættinum Víglínunni á Stöð 2 á laugardag.

Í þættinum var rætt við Elínu Björgu og Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands um stöðuna á vinnumarkaði og þau verkefni sem bíða nýrrar ríkisstjórnar. Farið var yfir stöðuna í lífeyrismálum auk síðustu ákvarðana kjararáðs um launahækkanir æðstu embættismanna og kjörinna fulltrúa.

„Það eru allar líkur á því að forsendur fyrir því sem við lögðum upp með séu ekki að halda. Við vitum auðvitað hvað það þýðir fyrir kjarasamningagerð. Það er endurskoðunarákvæði í kjarasamningum, fyrst hjá Alþýðusambandinu og í framhaldi af því, ef þau taka upp sína samninga, þá er endurskoðunarákvæði hjá félögum BSRB,“ sagði Elín Björg í þættinum.

Hún sagði það einkennilegt að kjararáð geti farið í það sem kalla megi leiðréttingar á launum hálaunahópa á meðan lítið sé hlustað á kröfur annarra hópa um leiðréttingar.

Margir telja sig eiga inni leiðréttingar

„Þeir sem hafa hærri launin eru frekar að fá leiðréttingar á meðan margar stéttir innan BSRB, og vafalaust innan annarra heildarsamtaka líka, telja sig eiga inni verulegar leiðréttingar sem ekki hefur verið hægt að uppfylla. Við höfum verið að skoða hvernig við getum tekið inn leiðréttingar til þess að bæta stöðu þeirra sem kalla hafa eftir slíku,“ sagði Elín Björg.

Hún sagði það vissulega mikilvægt verkefni að ná efnahagslegum og félagslegum stöðugleika hér á landi og að viðhalda svo þeim stöðugleika. Það gangi þó augljóslega ekki að almennt launafólk eigi að standa í slíku á meðan aðrir hópar, jafnvel hálaunahópar, fái ríflegar hækkanir.

Hægt er að horfa á viðtalið við Elínu Björg og Gylfa úr Víglínunni á laugardag á vef Vísis.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?