Margar helgar lausar í Birkihlíð í mars og apríl

Birkihlíð er fallegt tveggja hæða sumarhús í Munaðarnesi.

Það eru margar helgar lausar í Birkihlíð, orlofshúsi BSRB í Munaðarnesi, bæði í mars og apríl. Félagsmenn í öllum aðildarfélögum BSRB geta sótt um að leigja húsið, sem er eina orlofshúsið sem BSRB hefur í útleigu.

Birkihlíð er orlofshús á tveimur hæðum sem staðsett er í Munaðarnesi í Borgarfirðinum um 20 km fyrir utan Borgarnes, skammt frá Bifröst. Húsið var allt tekið í gegn fyrir sumarið 2014 og er það nú búið veglegum sólpalli sem nær í kringum þrjár hliðar hússins. Þar er einnig heitur pottur og fallegt útsýni yfir Norðurá. Á efri hæð hússins er samliggjandi stofa og borðstofa þaðan sem opið er inn í eldhús. Á hæðinni er einnig stórt svefnherbergi með hjónarúmi auk lítils salernis. Á neðri hæð hússins er sjónvarpskrókur með svefnsófa auk tveggja svefnherbergja með aðskildum rúmum. Þar er einnig stórt baðherbergi með þvottavél og sturtu. Af neðri hæðinni er hægt að ganga út á pallinn þar sem heiti potturinn er ásamt gasgrilli. Birkihlíð hefur því svefnaðstöðu fyrir átta manns fullorðna auk þess sem þar er ferðarúm fyrir börn.

Bókanir og frekari upplýsingar um útleigu hússins eru veittar á skrifstofu BSRB í síma 525 8300 eða á netfangið bsrb@bsrb.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?