Lífeyrissjóður fær nafnið Brú

Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga. Sjóðurinn hefur einnig opnað nýja heimasíðu, lifbru.is.

Eins og nafnið gefur til kynna ávaxtar lífeyrissjóðurinn ávaxtar lífeyri starfsmanna hjá sveitarfélögunum. Sjóðurinn var stofnaður 28. júlí 1998 með samningi á milli annars vegar BSRB, BHM, Kennarasambands Íslands (KÍ) og hins vegar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sjóðurinn er tíundi stærsti lífeyrissjóðurinn á landinu. Hann hefur umsjón með rekstri Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar.

Í tilkynningu frá sjóðnum segir að ákveðið hafi verið í kjölfar stefnumótunarvinnu stjórnar og starfsmanna sjóðsins að finna nýtt og þjálla heiti fyrir sjóðinn, nýja ásýnd og að uppfæra heimasíðu sjóðsins.

Lýsandi heiti fyrir lífeyrissjóð
„Brú er lýsandi heiti fyrir lífeyrissjóð og rímar vel við hlutverk lífeyrissjóðs, að tryggja örugga afkomu sjóðfélaga sinna og létta þannig leiðina á milli æviskeiða. Brúin í merkinu endurspeglar þessa tengingu æviskeiðanna, en litirnir lýsa lífsgleði og hinum fjölbreyttu verkefnum sem sjóðfélagar sinna í samfélaginu. Þá er Brú gott heiti á sjóði, sem ávaxtar lífeyri starfsmanna sveitarfélaga um allt land og minnir á þær fjölmörgu brýr sem tengja sveitarfélögin hvort sem átt er við samgöngur eða samstarf þeirra á milli,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur jafnframt fram að Brú varðveitir réttindi fyrir um 80 þúsund sjóðfélaga, en þar af eru að meðaltali 16 þúsund sjóðfélagar sem greiða mánaðarlega til sjóðsins og fjöldi lífeyrisþega er um fimm þúsund. Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2015 var um 114 milljarðar króna.

Við hvetjum félagsmenn sem greiða í sjóðinn til að kynna sér breytingar á nafni og skoða nýja heimasíðu Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?