Atvinnutekjur hinsegin karla eru 30% lægri en gagnkynhneigðra karla á ársgrundvelli en hverfandi munur mælist hjá hinsegin konum. Aðeins um helmingur hinsegin fólks á vinnumarkaði er að fullu opið með hinseginleika sinn á vinnustöðum og tæplega 60% segir að almennt halli á kjör þeirra og réttindi á vinnumarkaði.
Sterkt ákall er um aukna umfjöllun um málefni hinsegin fólks á vinnumarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um hinsegin vinnumarkað sem unnin var fyrir ASÍ, BHM og BSRB og könnun BHM um hinsegin vinnumarkað. Samantekt skýrslunnar má sjá hér, skýrslu hagfræðistofnunar hér og könnun BHM hér.
Í rannsókninni voru atvinnutekjur um 1.100 hinsegin einstaklinga samkvæmt skattframtölum bornar saman við atvinnutekjur gagnkynhneigðra. Almennt eru atvinnutekjur hinsegin fólks 18% lægri en gagnkynhneigða samanburðarhópsins. Munurinn nemur 30% hjá hinsegin körlum í samanburði við gagnkynhneigða karla en gagnkynhneigðir karlar eru langtekjuhæsti hópurinn á vinnumarkaði. Karlar og konur eru aðgreind til þess að kynbundinn launamunur hafi ekki áhrif á niðurstöður, en þó er mikilvægt að hafa launamuninn í huga. Munurinn er hverfandi hjá hinsegin konum í samanburði við gagnkynhneigðar konur. En vert er að hafa í huga að konur eru lægst launaðar á íslenskum vinnumarkaði og atvinnutekjur kvenna eru um 21% lægri en karla samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands.