Forystufólk aðildarfélaga BSRB fundaði í húsakynnum bandalagsins í dag á svokölluðum samningseiningafundi. Á fundinum fór fram samtal um sameiginleg baráttumál í komandi kjarasamningum, en samningar flestra aðildarfélaga bandalagsins renna út í lok mars 2019.
Á meðal þess sem rætt var á fundinum var árangurinn sem náðst hefur með samtali aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld sem farið hefur fram á reglulegum fundum frá því í desember 2017 og þau mál sem unnið hefur verið að á þeim fundum. Þar var sérstaklega farið yfir málefni kjararáðs og skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagslífsins í aðdraganda kjarasamninga.
Á fundinum var einnig farið yfir stöðu annarra sameiginlegra hagsmunamála aðildarfélaga BSRB, svo sem jöfnun launa á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins og um snemmtöku lífeyris.
Stóra málið á þingi BSRB í haust
Forystufólk aðildarfélaga bandalagsins mun halda áfram að stilla saman strengi sína í aðdraganda kjarasamninga nú þegar undirbúningur við vinnu á kröfugerðum félaganna er farin af stað. Sameiginlegar áherslur aðildarfélaga í komandi kjarasamningum verða í forgrunni á þingi BSRB, sem haldið verður dagana 17.-19. október næstkomandi og munu næstu fundir samningseininga bandalagsins verða haldnir í kjölfar þess.