Fyrstu niðurstöður tilraunaverkefnis jákvæðar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra skrifar um styttingu vinnuvikunnar í Fréttablaðinu í dag.

Niðurstöður úr tveimur könnunum og rýnihópum benda til þess að tilraunaverkefni BSRB og ríkisins um styttingu vinnuvikunnar hafi þegar haft jákvæð áhrif á starfsmenn á þeim vinnustöðum sem verkefnið nær til.

Fjórar stofnanir taka þátt í tilraunaverkefninu, sem hófst í apríl 2017 og mun standa í eitt ár. Stofnanirnar eru Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun, Þjóðskrá og Lögreglustjórinn á Vestfjörðum. Vinnuvika starfsmanna var stytt úr 40 stundum í 36 í tilraunaskyni, án launaskerðingar.

Í tilraunaverkefninu er kannað hver áhrif styttingu vinnutímans eru á gæði og hagkvæmni þjónustu, á líðan starfsmanna og starfsandann á vinnustöðunum. Samskonar mælingar eru gerðar á fjórum öðrum vinnustöðum með sambærilega starfsemi til að fá samanburð.

Fram kemur í grein Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, í Fréttablaðinu í dag að niðurstöður tveggja kannanna og rýnihópa bendi til þess að tilraunaverkefnið sé að skila mælanlegum árangri. Starfsánægja hefur aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara er fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf.

Í grein ráðherra segir að lokaniðurstöður úr verkefninu ættu að liggja fyrir í vor og von sé á skýrslu um árangurinn næsta haust.

Verðum að skoða styttingu af mikilli alvöru

„Miðað við þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir hefur stytting vinnuvikunnar jákvæð áhrif á starfsfólk og vinnustaði. Styttingin veitir fjölskyldum svigrúm til þess að eiga fleiri gæðastundir og slíkt hlýtur að hafa góð áhrif á þjóðfélagið í heild,“ skrifar Ásmundur Einar. „Þótt við getum ekki alhæft út frá þessari tilraun virðast þessar vísbendingarnar nógu skýrar til þess að við verðum að halda áfram og skoða möguleikana á styttingu vinnuvikunnar af mikilli alvöru.“

Þessar fyrstu niðurstöður úr tilraunaverkefni ríkisins ríma vel við niðurstöður úr tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar. Það verkefni er mun lengra komið og var nýverið útvíkkað til að ná til um 2.200 starfsmanna, um fjórðungs allra sem starfa hjá borginni.

Hægt er að lesa nánar um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?