Framhaldsfræðsla í takt við tímann

Framhaldsfræðslan þarf að geta hreyft sig hraðar en hefðbundna skólakerfið skrifar Karl Rúnar Þórsson, stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Það eru miklar breytingar framundan hjá starfsfólki á vinnumarkaði sem er með litla formlega menntun nú þegar samfélagið er að sigla inn í fjórðu iðnbyltinguna. Þess vegna þarf að leggja markvissa vinnu í að efla og styrkja þennan hóp og þar skiptir framhaldsfræðslan höfuðmáli.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli sem Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og stjórnarmaður í BSRB skrifar í Gátt, veftímarit um fullorðinsfræðslu.

„Í febrúar 2020 vorum við á blússandi siglingu við að undirbúa okkur fyrir fjórðu iðnbyltinguna, starfshópar höfðu verið skipaðir og fundir höfðu verið haldnir. Nefnd stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna skilaði af sér ítarlegri skýrslu. Þar birtist útreiknuð spá um að 28% íslensks vinnumarkaðar yrði líklega fyrir verulegum breytingum eða störf myndu hverfa vegna sjálfvirknivæðingar og 58% starfa tækju líklega talsverðum breytingum,“ skrifar Karl.

Heimsfaraldur kórónaveirunnar setti strik í reikninginn og í stað þess að hægt væri að beina öllum kröftum í að undirbúa þessi umskipti á vinnumarkaði var lagst í vinnu við að bregðast við veirunni og afleiðingum hennar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

„Framhaldsfræðslukerfið er fimmta grunnstoð menntakerfisins, Fræðslumiðstöðin er þróunarsetur framhaldsfræðslunnar og sér um umsýslu Fræðslusjóðs sem niðurgreiðir leiðir framhaldsfræðslunnar; námsleiðir, raunfærnimat og ráðgjöf um nám og störf,“ skrifar Karl. „Af einhverjum ástæðum, samkvæmt tölum OECD er hér á landi heildarfjöldi þeirra sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi meiri en í okkar nágrannalöndum. Við stöndum nú frammi fyrir því að ná okkur upp úr heimsfaraldri og bregðast jafnframt við áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar.“

Framhaldsfræðslan breytt lífi fólks

Hann segir framhaldsfræðsluna gríðarlega mikilvægt úrræði fyrir atvinnulífið, menntakerfið og í raun samfélagið allt. „Við höfum á ársfundum Fræðslumiðstöðvar fengið að heyra ánægjulegar og fjölbreyttar sögur fólks þar sem framhaldsfræðslan hefur með skýrum hætti veitt annað tækifæri til náms og í raun breytt lífi fólks. Þar höfum við svo sannarlega fengið með skýrum hætti vitnisburð um mikilvægi starfsins,“ skrifar Karl.

„Framhaldsfræðslan getur og þarf að geta hreyft sig hraðar og aðlagast hraðar breyttum aðstæðum en hið hefðbundna skólakerfi, því þannig nær hún að sinna markhópnum og mæta um leið óskum og þörfum atvinnulífsins á almennum sem opinberum vinnumarkaði,“ skrifar hann ennfremur.

Hægt er að lesa pistil Karls í veftímaritinu Gátt. Nánari upplýsingar um Fræðslumiðstöð atvinnulífsins má finna á vef miðstöðvarinnar.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?