Fræðsludagur Réttindanefndar BSRB var haldinn hinn 22. nóvember sl. og þar voru fulltrúar frá Fjársýslu ríkisins og Vinnueftirlitinu með fræðsluerindi. Réttindanefnd BSRB heldur tvo fræðslufundi á hverju ári þar sem markmiðið er að bjóða starfsfólki og félagslega kjörnum fulltrúum aðildarfélaga BSRB fræðslu um ýmis atriði. Í þetta skipti var annars vegar fjallað um Vinnustund og hins vegar um vinnuslys.
Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og formaður Réttindanefndar, var með inngangsorð og bauð gesti velkomna.
Frá Fjársýslu ríkisins komu þau Arngrímur V. Angantýsson og Guðrún J. Haraldsdóttir sem eru sérfræðingar hjá stofnuninni. Erindi þeirra fjallaði um virkni Vinnustundar og þau verkfæri sem eru í boði innan kerfisins fyrir yfirmenn, vaktasmiði og starfsfólk. Erindið var afar fróðlegt og voru gestir með margar spurningar sem þau fengu svör við.
Frá Vinnueftirlitinu kom Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur á sviði Vinnuslysa. Hann fjallaði um vinnuslys, tilkynningarskyldu, fyrirbyggjandi aðgerðir og þróun í fjölda slysa. Í erindi Guðmundar kom fram að atvinnurekendum beri að skrá öll slys en að ekki séu öll slys tilkynningarskyld til stofnunarinnar. Hann fór m.a. yfir fimm stig forvarna og fjallaði um áhættumat sem allir vinnustaðir eiga að framkvæma.
Fundurinn var vel sóttur og þakkar BSRB þátttakendum kærlega fyrir sitt framlag til fundarins.