Fjárhagsstaða launafólks versnað milli ára

Niðurstöður könnunar Vörðu voru kynntar á veffundi.

Tæplega þriðjungur vinnandi fólks glímir við erfiða fjárhagsstöðu og á erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýrri könnun sem Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi nýverið. Könnunin sýnir að staðan hefur versnað síðasta árið.

Tæplega tíundi hluti launafólks býr við skort á efnislegum gæðum og um fjórir af hverjum tíu gætu ekki mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum án þess að stofna til skuldar, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

„Það er gríðarlega alvarlegt að sjá að fjárhagsstaða launafólks versnar milli ára og ástandið er verst hjá einstæðum foreldrum,“ segir Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu. „Við sjáum að um sex af hverjum tíu í hópi einstæðra foreldra sem eru á vinnumarkaði eiga erfitt með að ná endum saman og tveir af hverjum tíu búa við skort á efnislegum gæðum.“

Helmingur finnur fyrir meira álagi

Í könnuninni var einnig spurt um áhrif heimsfaraldursins á launafólk. Ríflega helmingur finnur fyrir meira álagi í starfi vegna faraldursins. Hlutfallið er hæst meðal kvenna sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum þar sem sjö af hverjum tíu sögðust finna fyrir því að álagið hafi aukist.

Andlegri heilsu launafólks fer hrakandi milli ára. Ríflega þrjár af hverjum tíu konum og tæplega þrír af hverjum tíu körlum mælast með slæma andlega heilsu, sem er mun meira en í sambærilegri könnun sem gerð var fyrir ári. Þá mældist andleg heilsa slæm hjá um tveimur af hverjum tíu.

„Könnun Vörðu veitir skýra innsýn inn í veruleika launafólks sem hefur tekið á sig þungar byrgðar í heimsfaraldrinum, hvort sem litið er til fjárhagslegra þátta eða hrakandi andlegrar heilsu. Enn á ný fáum við sönnur þess að sumt fullvinnandi fólk nær ekki endum saman og getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Það er verk að vinna í næstu kjarasamningum og í félagslegri umgjörð samfélagsins.“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands.

Ófullnægjandi lífsskilyrði barna

Skýrsla Vörðu„Þessar niðurstöður segja ekki bara sögu um fullorðna einstaklinga á vinnumarkaði heldur sögu fjölda barna sem búa við ófullnægjandi lífsskilyrði vegna aðgerðaleysis stjórnvalda. Foreldrar þeirra barna eru líklegri til að glíma við andleg veikindi, þau fá sjaldnar næringarríka máltíð og nauðsynlegan fatnað en önnur börn, búa frekar við skort og líklegri til að þurfa að flytja oft. Þeirra hagur verður ekki tryggður með því að halda áfram á þeirri braut að lækka skatta á þá ríkustu, viðhalda kerfum þar sem örfáir einstaklingar græða á sameiginlegum auðlindum eða með aðhalds- og niðurskurðarkröfu á mikilvægar stofnanir, heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfið.,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Könnun Vörðu var gerð rafrænt dagana 24. nóvember til 9. desember 2021 meðal félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB. Könnunin var þýðisrannsókn og því opin öllum félagsmönnum heildarsamtakanna tveggja. Alls bárust 8.768 svör og voru svörin vigtuð eftir kyni og aðildarfélögum til að endurspegla betur þýðið.

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins var stofnuð árið 2019 af ASÍ og BSRB. Markmiðið með stofnuninni var að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála sem er ætlað að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið á milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar. Stofnunni er ætlað að dýpa umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með aukið fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu með betri lífsskilyrðum.

Hægt er að lesa skýrslu Vörðu með öllum niðurstöðum úr könnuninnir hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?