Enn fækkar þeim feðrum sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs samkvæmt nýjum tölum frá Fæðingarorlofssjóði. Frá því hámarksgreiðslur hófu að skerðast hefur hlutfallið farið úr 90% árið 2008 í 74% á síðasta ári.
Hlutfallið hefur lækkað hratt á milli ára, en á árinu 2015 nýttu um 80% feðra rétt til fæðingarorlofs. Rétt er að geta þess að um bráðabirgðatölur er að ræða fyrir árin 2015 og 2016.
Jafnframt fækkar þeim dögum sem feður eru í fæðingarorlofi, taki þeir eitthvað orlof á annað borð. Árið 2008 tóku feður að jafnaði 101 dag í fæðingarorlof, en í fyrra aðeins um 75 að meðaltali. Aftur hefur dregið verulega úr dagafjölda á milli 2015, þegar meðaltalið var 84 dagar.
Einnig hefur fækkað verulega þeim feðrum sem taka lengra orlof en þá lögbundnu þrjá mánuði sem aðeins feðurnir geta tekið. Alls tóku 11% feðra lengra orlof en þrjá mánuði árið 2017, samanborið við 23% árið 2008. Þá tóku aðeins 22% feðra styttra orlof en þrjá mánuði, en sá fjöldi er nú kominn í um 50%.
Mæðurnar axla meginábyrgð á umönnun barna
Sambærilegar mælingar á fæðingarorlofi mæðra standa því sem næst í stað eða breytast aðeins lítillega. Þetta sýnir að það eru mæðurnar sem axla meginábyrgð á umönnun barna þar til dagvistunarúrræði taka við.
Hluti af vandanum er sá að engin trygging er fyrir dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi hér á landi. Mörg sveitarfélög á landsbyggðinni bjóða börnum upp á leikskólapláss frá eins árs aldri en á höfuðborgarsvæðinu er það nær tveggja ára aldri. Reykjavíkurborg hefur þó tilkynnt um að nokkrar leikskóladeildir fyrir ungabörn verði opnaðar í haust.
Samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru langflest börn yngri en eins árs ekki í dagvistun. Áhrif fæðingarorlofskerfisins og stefnu stjórnvalda til dagvistunarmála hafa því þau áhrif að mæður axla meginábyrgð á umönnun barna á fyrsta aldursári þeirra og jafnvel lengur. Það hefur neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku þeirra og getur haft áhrif á starfsþróunarmöguleika og tækifæri.
Farið verði eftir tillögum starfshóps
Til að gera feðrum kleift að hafa sömu tækifæri til að vera með börnum sínum á fyrstu mánuðunum í lífi þeirra og til að tryggja jafnrétti foreldra til fæðingarorlofs og á vinnumarkaði er ljóst að breyta þarf þessu fyrirkomulagi.
Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi voru hækkaðar upp í 500.000 kr. í október s.l. Fæðingarorlof má taka allt að 24 mánaða aldri barns og því munu fyrstu foreldrar sem njóta hámarksgreiðslna ekki koma inn í mælingar fyrr en í fyrsta lagi 15. október 2018. Það felur í sér að áhrif þeirra hækkunar mun ekki koma fram í mælingum strax.
BSRB leggur áherslu á að stjórnvöld fylgi tillögum starfshóps sem móta átti framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, sem skilaði ráðherra skýrslu snemma á síðasta ári. Mikilvægt er að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Þá þurfa hámarksgreiðslur að hækka í að minnsta kosti 600 þúsund krónur á mánuði. Greiðslur að 300 þúsundum á ekki að skerða.
Hámarksgreiðslur til foreldra í fæðingarorlofi voru hækkaðar upp í 500.000 krónur í október 2016. Fæðingarorlof má taka allt að 24 mánaða aldri barns og því munu fyrstu foreldrar sem njóta hámarksgreiðslna ekki koma inn í mælingar fyrr en í fyrsta lagi 15. október 2018. Það felur í sér að áhrif þeirra hækkunar mun ekki koma fram í mælingum strax.