Dæmdar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar

Dómur Hæstaréttar hefur fordæmisgildi.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm héraðsdóms og dæmt Sveitarfélagið Ölfus til að greiða félagsmanni SFR 2,5 milljónir króna vegna ólögmætrar uppsagnar. 

Félagsmanninum var vikið úr starfi í kjölfar atviks á sambýli sem átti sér stað milli hans og íbúa sambýlisins, að því er segir í frétt á vef SFR. SFR er eitt aðildarfélaga BSRB.

Atvikið átti sér stað þegar félagsmaðurinn beitti sér samkvæmt starfsreglum vinnustaðar, í ástandi sem kallaði á að starfsmenn næðu stjórn á aðstæðum. Aðilar deildu um lögmæti uppsagnarinnar og hvort félagsmaðurinn ætti rétt á skaða- og miskabótum vegna hennar.

Héraðsdómur hafði áður dæmt á þann veg að sveitarfélagið Ölfus hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að láta ekki fara fram fullnægjandi rannsókn á atvikinu og þeim ávirðingum sem bornar voru á félagsmanninn, áður en honum var vikið úr starfi. Af þeim sökum hefði uppsögnin verið ólögmæt. 

Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms og taldi einnig að félagsmaðurinn ætti rétt á skaðabótum frá sveitarfélaginu vegna ólögmætrar uppsagnar. Skaðabætur voru dæmdar 2 milljónir króna og  miskabætur 500 þúsund krónur. Þá var sveitarfélaginu gert að greiða allan málskostnað, alls á 2,5 milljónir króna.

Tveggja ára barátta

Það tók þetta mál tvö ár að komast í gegnum dómskerfið en niðurstaðan er mikilvæg fyrir opinbera stafsmenn þar sem Hæstiréttur hefur með óyggjandi hætti tekið á ólögmæti fyrirvaralausra uppsagna. 

Í störfum opinberra starfsmanna geta komið upp vafaatriði sem kalla á faglega skoðun á vinnustöðum. Það er mikilvægur sigur að Hæstiréttur gagnrýni í dómi sínum framtaksleysi sveitarfélagsins í málinu og því ber að fagna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?