BSRB mun ekki styðja frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna nema gerðar verði á því breytingar í meðförum Alþingis.
Bandalagið telur frumvarpið ekki endurspegla það samkomulag sem bandalög opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög. Í umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er bent á að með minniháttar breytingum á frumvarpinu sé hægt að gera þær mikilvægu breytingar á lífeyrismálum landsmanna sem unnið hefur verið að undanfarin ár í sátt við opinbera starfsmenn.
„Við höfum frá upphafi lagt höfuðáherslu á að áunnin réttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna yrðu jafn verðmæt eftir breytinguna og þau eru í dag. Það teljum við ekki tryggt eins og frumvarpið kemur frá ráðuneytinu og við því þarf Alþingi að bregðast,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. Afstaða bandalagsins er sú sama og til fyrra frumvarps fjármálaráðherra, sem lagt var fram á þingi fyrir síðustu kosningar.
Ábyrgð nái til allra sjóðfélaga
Í umsögn BSRB er þessi afstaða bandalagsins ítrekuð: „Samræming lífeyriskerfa milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verður ekki gerð með skerðingu á réttindum núverandi sjóðfélaga. Það er því ekki nægilegt að frumvarpið kveði eingöngu á um að lítill hluti núverandi sjóðfélaga sæti ekki skerðingum á réttindum sé staða sjóðsins neikvæð í tilskilinn tíma en aðrir ekki sitji ekki við sama borð. Kerfisbreytingin hlýtur að þurfa að fela í sér að núverandi sjóðfélagar haldi sömu réttindum eins og hefði verið í núverandi kerfi eða jafn verðmætum.“
Þar er einnig bent á hvernig tryggja megi að frumvarpið endurspegli samkomulagið að fullu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkið tryggi að réttindi allra sjóðfélaga 60 ára og eldri séu tryggð. Til að ná sátt um málið þarf sama ábyrgð að ná til allra núverandi sjóðfélaga. Í ljósi þess að stjórnvöld telja afar litlar líkur á að reyna muni á slíkt ákvæði er ekkert því til fyrirstöðu að fara þessa leið.
Lesa má nánar um afstöðu BSRB í umsögn bandalagsins um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.