Stjórn BSRB hefur sent frá sér ályktun vegna fjárlaga fyrir árið 2015. Þar er m.a. fjallað um hækkun virðisaukaskatts á nauðsynjavörur, rétt atvinnulausra og jafnan rétt allra til grunnþjónustu, s.s. menntunar og heilbrigðisþjónustu.
Ályktun stjórnar BSRB um fjárlagafrumvarp 2015
Stjórn BSRB mótmælir þeim fyrirætlunum að hækka skatta á nauðsynjavörur, draga úr áunnum rétti atvinnulausra og aukningu á greiðsluþátttöku almennings fyrir almannaþjónustu líkt hún birtist okkur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.
Hækkun skatta á nauðsynjavörur
Stjórn BSRB leggst alfarið gegn hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts eins og boðað er í nýju frumvarpi til fjárlaga. Hvað sem reiknikúnstum fjármálaráðherra líður er staðreyndin sú að boðuð skattahækkun mun hækka nauðsynjavörur á borð við matvæli og heitt vatn umtalsvert í verði. Þessi aðgerð mun bitna harðast á þeim sem síst skyldi og minnst hafa á milli handanna.
Stjórn BSRB hafnar því að hækkun barnabóta vegi upp skattahækkanir helstu nauðþurfta og komi þannig til móts við aukin útgjöld þeirra tekjulægstu. Stór hluti þeirra efnaminnstu hafa ekki börn á framfæri og njóta því engra mótvægisaðgerða vegna skattahækkananna. Auknar byrðar eru því lagðar á þennan stóra hóp til að létta megi byrðar hinna efnameiri.
Málefni atvinnulausra
Afstaða stjórnvalda í garð atvinnulausra, sérstaklega þeirra sem hafa lengi verið án atvinnu, birtist með skýrum hætti í nýju fjárlagafrumvarpi. Skerða á áunnin rétt launafólks til atvinnuleysisbóta um sex mánuði á sama tíma og ríkið mun ekki greiða sitt framlag til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og jafnframt skerða fjárframlög til Vinnumálastofnunar. Að óbreyttu mun geta VIRK og Vinnumálastofnunar til að sinna hlutverki sínu – sem er m.a. að aðstoða atvinnulausa að snúa aftur á vinnumarkaðinn – skerðast til muna. Með þessu varpa stjórnvöld ábyrgð á vanda langtímaatvinnulausra frá sér og munu nokkur hundruð manns missa áunninn bótarétt sinn á næstu mánuðum vegna þessa.
Aðgangur óháð efnahag
Fram til þessa hefur samstaða ríkt þvert á stjórnmálaflokka um jafnan rétt allra til heilbrigðisþjónustu og menntunar óháð efnahag. Og sú sátt virðist enn vera til staðar, a.m.k. í orði, því forsætisráðherra var mjög tíðrætt um þennan jafna rétt allra í setningaræðu sinni á Alþingi. Í fjárlagafrumvarpinu sem tekið var til umræðu í kjölfarið er hins vegar erfitt að sjá hvernig til standi að framkvæma hugsjónina um samfélag jafnaðar. Tekjustofnum frá þeim sem mest hafa er hafnað en auknar álögur eru lagðar á láglaunafólk, sjúklinga, lífeyrisþega og öryrkja. Það er hrein móðgun við fólkið í landinu að boða lífskjarajöfnun þegar í reynd er verið er að auka misskiptinguna.
Stjórn BSRB krefst þess að ríkisstjórnin standi sannarlega vörð um grunngildin í okkar samfélagi – jöfnuðinn, réttlætið og jafnrétti allra. Almannaþjónustuna verður að reka á samfélagslegum grunni og stjórnvöld verða að standa vörð um velferðarkerfið og starfsfólkið sem innan þess starfar. Ef öllum er ekki tryggður jafn aðgangur að almannaþjónustunni óháð efnahag er aldrei hægt að tala um Ísland sem samfélag jafnaðar.