Allar upplýsingar um raunfærnimat á einum stað

Raunfærnimat mælir þekkingu sem hefur til dæmis verið aflað með þáttöku í atvinnulífinu.

Nám fer ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur lærum við eitthvað gagnlegt í allskonar aðstæðum og ýmsu samhengi. Þetta er grundvallarhugmyndin á bak við raunfærnimat, þar sem færni einstaklingsins er metin án tillits til þess hvernig hennar var aflað.

Ýmis raunfærnismatsverkefni eru í gangi um allt land og getur hluti þeirra nýst félagsmönnum aðildarfélaga BSRB, sér í lagi hópum sem ekki hafa lokið prófi á framhaldsskólastigi. Starfsmennt fræðslusetur hefur nú safnað saman upplýsingum um hin ýmsu verkefni sem eru í gangi á einn stað.

Á vef Starfsmenntar má nú finna upplýsingar um það hvað raunfærnimat er og hvernig það er fyrir einstaklinginn að ganga í gegnum slíkt mat. Þá má finna lista yfir þær greinar þar sem boðið er upp á raunfærnimat.

Í einhverjum tilvikum kostar Starfsmennt þátttöku í raunfærnimati, en það á eingöngu við um þau verkefni sem eru undir hatti Starfsmenntar, til dæmis raunfærnimat á móti kröfum Háskólabrúar Keilis.

Hægt er að fá allar upplýsingar á vef Starfsmenntar, en einnig má finna talsvert af upplýsingum á vefnum Næsta skref. BSRB hvetur félagsmenn aðildarfélaga sem gætu nýtt sér raunfærnimatið til að skoða hvort þessi leið til að fá reynslu og þekkingu metna gæti hentað þeim.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?