Aðildarfélög BSRB hafa náð samkomulagi um launahækkanir og kjarabætur fyrir starfsfólk í almannaþjónustu við ríki og Reykjavíkurborg. Um skammtímasamninga er að ræða sem gilda í tólf mánuði frá 1. apríl 2023.
Forsvarsfólk fjórtán aðildarfélaga BSRB undirrita í kjölfarið kjarasamningana í húsi Ríkissáttasemjara en undir þau falla um 14 þúsund félagsmenn. Stéttafélagið Sameyki hefur þegar undirritað sína samninga við ríki og borg.
Samningarnir fara nú í kynningu og í kjölfarið í atkvæðagreiðslu í félögunum sem lýkur 14. apríl.
„Leiðarljós okkar í þessum viðræðum var að verja kaupmátt starfsfólks í almannaþjónustu, enda er verðbólgan farin að bíta almenning verulega og langt síðan fólk á almennum vinnumarkaði fékk sínar kjarabætur. Við fögnum því að kjarasamningur taki við af kjarasamningi svo launafólk fái ávinninginn af samningunum strax í vasann 1. maí. Rétt eins og á almenna markaðinum er um skammtímasamninga að ræða og svo hefst fljótlega undirbúningur fyrir gerð langtímakjarasamninga hjá aðildarfélögum BSRB. Kröfur okkar munu ekki eingöngu beinast að launagreiðendum heldur einnig stjórnvöldum. – sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Stéttafélögin sem hafa undirritað samninga eru:
Félag flugmálastarfsmanna ríkisins
Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
FOSS - stéttafélag í almannaþjónustu
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
Landssamband lögreglumanna
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Sameyki - stéttarfélag í almannaþjónustu
Sjúkraliðafélag Íslands
Starfsmannafélag Garðabæjar
Starfsmannafélag Kópavogs
Starfsmannafélag Húsavíkur
Starfsmannafélag Suðurnesja
Starfsmannafélag Vestmanneyja