Upplýsingafundur um Betri heilbrigðisþjónustu

Um hundrað manns sátu fund velferðarráðuneytisins í Norræna húsinu í síðustu viku þar sem kynnt voru verkefni um úrbætur í heilbrigðisþjónustu sem unnið verður að á næstu misserum. Þjónustustýring, stórbætt upplýsingagjöf og ráðgjöf, innleiðing hreyfiseðla, heildstætt greiðsluþátttökukerfi fyrir heilbrigðisþjónustu og sameining stofnana eru meðal helstu verkefna.

Til fundarins var boðið fulltrúum stofnana sem starfa innan heilbrigðiskerfisins, fulltrúa fagstétta heilbrigðisstarfsfólks o.fl. Markmið fundarins var að kynna þau verkefni sem unnið verður að á næstunni til að efla heilbrigðisþjónustuna og stuðla að framþróun hennar. Annar upplýsingafundur verður haldinn á næstunni með sjúklingafélögum og öðrum hagsmunasamtökum notenda heilbrigðisþjónustunnar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar, lýsti þeim verkefnum sem unnið verður að undir formerkjunum Betri heilbrigðisþjónusta 2013-2017 og gerði grein fyrir tilurð þeirra og greiningarvinnunni sem að baki liggur. Þar væri einkum stuðst við niðurstöður greiningar á heilbrigðiskerfinu sem fram fór á vegum velferðarráðuneytisins árin 2011-2012 með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis og aðkomu hátt í 100 sérfræðinga heilbrigðiskerfisins. Ráðherra sagði að þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé um margt afar góð og skori jafnan hátt í alþjóðlegum samanburði sé engu að síður margt sem megi og þurfi að bæta og það hafi niðurstöður greiningarinnar einnig leitt í ljós:

„Það sýndi sig að þær styrktu og staðfestu margt af því sem þegar hafði verið bent á - jafnvel árum saman - um þætti í heilbrigðiskerfinu þar sem úrbóta er þörf“ sagði heilbrigðisráðherra og benti meðal annars á þá sérstöðu íslensks heilbrigðiskerfis meðal nágrannaþjóða að beita ekki markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. „Þessu fylgja margvíslegir annmarkar. Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Þetta vitum við og höfum vitað lengi“ sagði ráðherra meðal annars. Um verkefnin sem framundan eru sagði ráðherra:

„Í stuttu máli snúast þau um að hafa yfirsýn og stjórn á því hvernig heilbrigðisþjónustan er notuð þannig að ávallt séu valin rétt úrræði miðað við þjónustuþörf og að yfirsýn og samhæfð þjónusta tryggi samfellu og komi í veg fyrir tví- eða margverknað sem er augljóst vandamál og leiðir til sóunar. Sameining heilbrigðisstofnana snýst um að efla faglegan og fjárhagslegan styrk þeirra. Hreyfiseðlar og stórbætt upplýsingagjöf og ráðgjöf til notenda heilbrigðiskerfisins er hugsað til þess að efla möguleika fólks til að vera virkir þátttakendur í meðferð og að taka ábyrgð á eigin heilsu eftir því sem kostur er. Endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu er fyrst og síðast spurning um sanngjarnt og réttlátt greiðslukerfi sem er jafnframt gegnsætt og auðskiljanlegt fólki. Ein samtengd Rafræn sjúkraskrá er gríðarlega stórt og mikilvægt mál fyrir svo margra hluta sakir. Og loks er það endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar sem er raunar nokkuð flókið mál en snýst ekki síst um að byggja skynsamlega hvata inn í kerfið, meta árangur á nýjan hátt miðað við ávinning af þjónustunni og ákveða rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu út frá íbúafjölda á viðkomandi þjónustusvæði og ýmsum lýðfræðilegum og félagslegum þáttum. Fyrstu skref á þeirri leið eru greiðslukerfi heilsugæslunnar, en þau taka breytingum í takt við tillögur um þjónustustýringu.“

Að loknu ávarpi Kristjáns Þórs fjölluðu sérfræðingar um einstök verkefni Betri heilbrigðisþjónustu 2013-2017 og kynnt var nýtt vefsvæði þar sem nánar er fjallað um þau hvert og eitt: vel.is/betri-heilbrigdisthjonusta/

Ávarp heilbrigðisráðherra

Upplýsingabæklingur um verkefnið

Vefsvæði verkefnisins


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?