Fjórir vinnustaðir hafa verið valdir til að taka þátt í tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar. Markmiðið með verkefninu er að kanna hvort stytting vinnuviku leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi vinnustaða.
Mikill áhugi var á að taka þátt í verkefninu en niðurstaðan varð sú að þeir vinnustaðir sem hefja tilraunina að þessu sinni eru Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá.
„Við fögnum þessum áfanga í áralangri kröfu okkar um styttingu vinnuvikunnar. Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir tilraun um styttingu vinnutíma á annað ár og niðurstöðurnar eru afar jákvæðar. Nú bætist ríkið við,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Tilraunaverkefnið mun standa í eitt ár, frá 1. apríl næstkomandi til 1. apríl 2018. Vinnustundum starfsmanna verður fækkað úr 40 á viku niður í 36 stundir án þess að til launaskerðingar komi. Rannsakað verður hver áhrif styttingar vinnutímans verða á gæði og hagkvæmni þjónustu sem vinnustaðirnir veita, auk áhrifa á vellíðan starfsmanna og starfsanda. Sambærilegar mælingar verða gerðar á vinnustöðum þar sem vinnuvikan verður óbreytt til að fá samanburð.
Stytting vinnuvikunnar dregur úr álagi
„Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs er mikilvæg forsenda þess að jafnrétti kynjanna náist á vinnumarkaði. Mikil umræða er um álag á fjölskyldur en of fá skref tekin í átt að breytingum. Það er því brýnt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum og leitað sé viðeigandi lausna með jafnræði að leiðarljósi. Rannsóknir sýna að meirihluti íslenskra fjölskyldna telur styttingu vinnutíma eina helstu lausnina varðandi álag,“ segir Elín Björg.
Verkefnið kemur í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 28. október 2015 í tengslum við gerð kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB. Samkvæmt yfirlýsingunni skal sérstaklega skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal þar sem unnin er vaktavinna. Af þeim fjórum stofnunum sem nú hefja þátttöku í verkefninu er einn vaktavinnustaður. Unnið verður að því að bæta öðrum vaktavinnustað inn í verkefnið til að niðurstöður þess endurspegli fjölbreytni starfa hjá ríkinu.
Hægt að stytta vinnutíma á öðrum vinnustöðum
„Við vonum að aðrir vinnustaðir taki styttingu vinnutíma til umræðu,“ segir Elín Björg. „Það geta allir tekið til skoðunar vinnutíma og verkefnaskipulag innan hvers vinnustaðar með það að leiðarljósi að finna sem hagkvæmast fyrirkomulag fyrir reksturinn og starfsmennina. Það þarf ekki pólitíska ákvörðun eða þátttöku í tilraunaverkefni til þess að gera tilraunir með að stytta vinnutímann.“
Í síðustu kjarakönnun sem BSRB gerði kom skýrt fram að talsverður fjöldi vill vinna minna en hann gerir í dag. Jafnframt að vinnan hefði neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum og talsvert meira álag. Áhrifin séu þau að veikindadagar verða fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafa aukist og of margir sjá sér ekki fært að snúa aftur til vinnu.