Stytting vinnuviku heldur áfram hjá borginni

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað á fundi sínum á þriðjudag að framlengja tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án skerðingar á launum um eitt ár. Verkefnið hefur þegar verið í gangi á tveimur vinnustöðum borgarinnar í rúmlega ár og lofa niðurstöður góðu.

BSRB hefur lagt mikla áherslu á styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar frá árinu 2004 og tók þátt í tilraunaverkefninu með Reykjavíkurborg. Þá mun bandalagið taka þátt í sambærilegu tilraunaverkefni sem nú er að fara í gang hjá ríkinu.

„Stytting vinnuvikunnar hefur verið ein helsta krafa BSRB allt frá árinu 2004. Líkt og aðrar kröfur kemur hún beint frá grasrótinni og færist sífellt ofar á forgangslista yfir kjarabætur félagsmanna,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í erindi sínu á málþinginu í síðustu viku.

Í verkefni Reykjavíkurborgar voru tveir vinnustaðir fengnir til samsstarfs. Á öðrum unnu starfsmenn klukkutíma skemur á hverjum degi, en á hinum var ekki unnið eftir hádegi á föstudögum.

Stytting hefur jákvæð áhrif
Niðurstöðurnar eftir það ár sem liðið er frá því verkefnið fór í gang benda til þess að það hafi haft jákvæð áhrif, eins og fjallað hefur verið um hér á vef BSRB. Starfsmenn upplifa bætta líðan og meiri starfsánægju í samanburði við vinnustað þar sem vinnuvikan var ekki stytt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði næstu skref mikilvæg en vandasöm, á fundi borgarstjórnar á þriðjudag, að því er fram kemur í frétt mbl.is . Þá lagði hann áherslu á að slíta ekki það starf sem þegar hafi verið unnið á vinnustöðunum tveimur.

Stýrihópur um verkefnið mun leggja fram tillögu um næstu skref á næstu vikum. Búast má við því að í haust verði þeim vinnustöðum sem taka þátt í verkefninu fjölgað.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?