Starfsfólk Fiskistofu fjölmennti til ráðherra

Stór hópur starfsfólks Fiskistofu sem beðið hefur í margar vikur eftir viðtali við Sigurð Inga Jóhannsson vegna fyrirhugaðs flutning stofnunarinnar til Akureyrar fjölmennti í ráðuneytið nú í morgun. Starfsfólkið hafði fyrirfram fengið upplýsingar um að ráðherra væri alla jafna í húsinu á þessum tíma en í morgun var hann þó ekki á staðnum til að taka á móti áskorun frá hópnum. Það kom í hlut Kristjáns Skarphéðinssonar að taka á móti hópnum sem var ekki ánægður með að hafa ekki enn fengið viðtal þrátt fyrir margar ítrekanir.

Í áskoruninni sem starfsfólkið afhenti Kristjáni bendir starfsfólkið á fjögur mikilvæg atriði sem þau telja að ráðherra hafi ekki horft til við þá ákvörðun sína að flytja Fiskistofu norður. Í fyrsta lagi telja þau að flutningurinn sé ólögmætur, þar sem ekki sé til staðar lagaheimild fyrir honum. Þá gera starfsmenn alvarlega athugasemd við brot á jafnræði þar sem þeim starfsmönnum sem láta undan og flytja sig er boðið þrjár milljónir, auk þess sem starfsmenn eldri en 60 ára þurfi ekki að flytja sig. Í þriðja lagi krefjast starfsmenn þess að rökstuðningur fylgi kostnaðargreiningu ráðherrans við flutninginn, sem hann hefur sagt hlaupa á 200-300 milljónum. Að lokum benda þau á að starfssemi stofnunarinnar muni lamast við flutninginn og mikið þekkingartap verða. Einungis einn starfsmaður hefur ákveðið að flytja sig norður, en nú þegar hafa nokkrir hætt og horfið til annarra starfa og margir eru að hugsa sig um og líta í kringum sig.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?