Starfshópur um samræmingu á fjölskyldu og -atvinnulífi hefur nú skilað félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum sínum og greinargerð. Velferðarráðherra skipaði hópinn í samstarfi við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu haustið 2012.
Sú ákvörðun að fela vinnuhópi þetta verkefni byggist á 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem kveðið er á um að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Í ákvæðinu segir að slíkar ráðstafanir skuli meðal annars auka sveigjanleika í skipulagningu vinnu og vinnutíma og einnig að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi frá vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
Tillögur vinnuhópsins til ráðherra eru í tíu liðum og snúa í fyrsta lagi að ríki og sveitarfélögum, í öðru lagi að atvinnulífinu, fyrirtækjum og stofnunum, í þriðja lagi fela þær í sér tillögur um fræðslu og vitundarvakningu í samfélaginu og leiðir til að miðla upplýsingum um þessi mál og loks eru tillögur um frekari greiningu á þörfum og vilja launafólks og atvinnurekenda sem lúta að samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs.
Í vinnuhópnum sátu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi háskólamanna, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Femínistafélagi Íslands og BSRB en aðalfulltrúi bandalagsins var Gunnar Örn Gunnarsson.
Jafnréttisstofa lagði til starfsmann til að vinna að verkefninu í samræmi við samning við Jafnréttisráð.
Greinargerð vinnuhópsins