Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL funda í dag, mánudaginn 26. október, á ný með samninganefnd ríkisins. Fundurinn hófst kl. 13 og mun standa frameftir degi.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags, segir í samtali við Vísi að unnið sé hörðum höndum að því að ná samningum fyrir næsta allsherjarverkfall sem skellur að óbreyttu á næsta fimmtudag. Hann segir það hafa verið vonbrigði að ekki hafi náðst samkomulag um launaliðinn um helgina, líkt og stefnt hafði verið að.
„Það olli okkur verulegum áhyggjum að ná ekki að klára þennan launalið yfir helgina. En við erum komin nokkuð langt að mínu mati, þó það séu einhverjar brekkur eftir til að fara. En eins og alltaf þá getur alltaf brugðið til beggja vona í svona, það eru enn viðkvæm mál sem þarf að takast á við,“ segir Árni Stefán.
Hann segir þó flest benda til að það muni takast að afstýra næsta verkfalli. „Við munum reyna að ýta á að klára þetta fyrir fimmtudag. Ég geri mér vonir um að við náum samkomulagi, það er ef allt gengur eins og verið hefur. Við höfum sett okkur markmið að vera búin að því fyrir allsherjarverkföllin næsta fimmtudag.“