Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu nýverið undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Markmið samkomulagsins, sem unnið var undir handleiðslu ríkissáttasemjara í svonefndum SALEK-hópi, er að tryggja varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta. Þá færir samkomulagið félagsmönnum BSRB svonefnda launaskriðstryggingu. Slíkt ákvæði mun færa opinberum starfsmönnum sambærilegar hækkanir og verða á almennum markaði umfram kjarasamningsbundnar launahækkanir, hækkanir sem verða vegna svo nefnds launaskriðs.
Aðilar samkomulagsins skuldbinda sig til þess að ljúka gerð kjarasamninga til ársloka 2018 en að þeim tíma loknum verði nýtt vinnumarkaðslíkan tekið í notkun. Að lokið verði við gerð samkomulags um jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Að samið verði við stjórnvöld um efnahagslegar mótvægisaðgerðir vegna þrýstings sem höfrungahlaup á vinnumarkaði hefur valdið.
Forystufólk eftirfarandi aðila skrifuðu undir samkomulagið í Iðnó í dag: Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtök atvinnulífsins (SA), Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samninganefnd ríkisins (SNR). Samkomulagið nær til 70% launafólks sem á aðild að stéttarfélögum á Íslandi.
Samkomulagið í heild sinni má sjá hér og einnig má finna kynningarefni um það hér.