Raunútgjöld til heilbrigðismála hafa lækkað

Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa lækkað á undanförnum árum sem og raunútgjöld á mann segir Rúnar Vilhjálmsson prófessor í félagsfræði við hjúkrunardeild Háskóla Íslands.

„Ef við berum okkur saman við OECD-ríkin þá sjáum við að við erum í 15. sæti í raunútgjöldum til heilbrigðismála á mann. En síðan í sambandi við landsframleiðsluna eða hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu þá erum við komin í 23. sætið. Við vorum mun hærra sett í þessum samanburði hér fyrir nokkrum árum síðan, þ.e.a.s. á árunum fyrir hrun og reyndar fyrst eftir hrunið,“ segir Rúnar í samtali við fréttastofu Rúv. Hann bendir á að hlutfall útgjalda af landsframleiðslu hér á landi sé 8,7% miðað við 11% í Svíþjóð og 10,4% prósent í Danmörku.

Í nýrri könnun Rúnars sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun og fjallar um heilsu og lífshætti Íslendinga kemur fram að tæp 22% Íslendinga höfðu á mánuðunum 6 fyrir framkvæmd könnunarinnar frestað því að leita læknis jafnvel þótt fólk teldi sig þurfa á læknisaðstoð að halda. Af þeim sem höfðu frestað þess að leita læknis sögðu tæp 40% hafa gert það vegna kostnaðar við heilbrigðisþjónstuna.

Samkvæmt sömu könnun telur jafnframt yfirgnæfandi meirihluti (81,1%) að hið opinbera ætti fyrst og fremst að reka heilbrigðis- þjónustuna. Í öllum hópum og undirhópum samfélagsins var meirihluti fyrir opinberum rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Aðeins um 1% svarenda taldi að einkaaðilar ættu fyrst og fremst að sjá um rekstur heilbrigðisþjónustunnar. Þegar afstaða til reksturs heilbrigðisþjónustunnar er skoðaður á milli ára sést að stuðningur við félagslega rekið kerfi hefur aukist á milli ára.

BSRB hefur bent á það að samkvæmt alþjóðlegum samanburðarrannsóknum hefur það sýnt sig að félagslegu heilbrigðiskerfi eru skilvirkari en önnur heilbrigðiskerfi heimsins, það er, þau skila almenningi betri lýðheilsu fyrir lægri heildarkostnað en önnur kerfi. Aðgengi er þannig jafnara og heildarkostnaður lægri. BSRB hefur m.a. bent á þetta í nýlegri ályktun þar sem lagst er gegn áformum heilbrigðisráðherra að bjóða út rekstur nýrra heilsugæslustöðva sem fer augljóslega gegn vilja þjóðarinnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?