Norrænir ráðherrar jafnréttismála stóðu fyrir opnum umræðufundi um karla og jafnrétti á 59. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Í nýsamþykktri samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál fyrir tímabilið 2015–2018 er lögð áhersla á karla og jafnrétti og aðgerðir til að auka þátttöku þeirra í öllu jafnréttisstarfi. Ráðherrarnir funduðu einnig með Phumzile Mlambo-Nqcuka framkvæmdastjóra UN Women og Ban Ki-moon aðalritara Sameinuðu þjóðanna að því er segir í frétt á vef Norrænu ráðherranefndarinnar.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir nauðsynlegt að konur og karlar vinni saman að framförum á sviði jafnréttismála. „Að brjóta upp staðalmyndir kynja og vinna gegn kynbundnu náms- og starfvali er áskorun sem öll Norðurlöndin glíma við. Mikilvægt er að stefna okkar og ákvarðanir geri bæði körlum og konum kleift að sinna umönnun og uppeldi barna sinna. Kynbundið ofbeldi er annað dæmi um viðfangsefni þar sem ekki verða neinar framfarir nema karlmenn taki virka afstöðu gegn ofbeldinu.“ Síðastliðin 40 ár hefur norrænt samstarf á sviði jafnréttismála verið farsælt og átt stóran þátt í að skipa Norðurlandaþjóðunum í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Hvergi mælist kynjajafnrétti meira en á Norðurlöndum.
Norðurlöndin hafa leitast við að tala einni röddu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að knýja fram árangur í málaflokknum á heimsvísu. Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women þakkaði norrænum stjórnvöldum öflugan fjárhagslegan og pólitískan stuðning við starfssemi UN Women. Norræn stjórnvöld hafa lagt áherslu á náið samstarf við UN Women vegna yfirstandandi vinnu við ný þróunarmarkmið sem samþykkt verða síðar á þessu ári og munu taka við af þúsaldarmarkmiðunum frá árinu 2000. Mlambo-Ngcuka sagði Norðurlöndin vera mikilvæga fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar árangur í jafnréttismálum og að þau væru í lykilstöðu til að sýna heimsbyggðinni fram á að raunhæft sé að ná fullu jafnrétti kvenna og karla.