Lokaskjal Nordisk Forum

Jafnréttisráðherrum Norðurlandanna, þ.á.m. Eygló Harðardóttir, voru formlega afhentar lokaniðurstöður jafnréttisráðstefnunnar Nordiskt Forum á lokahátíð ráðstefnunnar sunnudaginn 15. júní.

Í þessu lokaskjali eru ráðherrarnir hvattir til að virða sáttmálann sem ríkisstjórnir Norðurlandanna skrifuðu undir á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995. Þar lofuðu ríkisstjórnir landanna að virða kynjasjónarmið í öllu sínu starfi og ákvörðunum.

Norræna kvennahreyfingin setur fram í lokaskjali Nordiskt Forum 63 kröfur sem ríkisstjórnir Norðurlandanna eru hvattar til að bregðast við.

Jafnréttisráðstefnunni Nordiskt Forum lauk í gær, sunnudaginn 15. júní. Þetta var frábær fundur kvenna og karla alls staðar að úr Norðurlöndum. Sex þúsund skráðir þátttakendur, þar af 350 frá Íslandi, tóku þátt í umræðum og fundum á ráðstefnunni, og 20.000 gestir sóttu viðburði ráðstefnunnar heim. Við erum viss um að gestir ráðstefnunnar snúa aftur heim í dag og næstu dagana með hugmyndir og lausnir fyrir framtíðina. Í sameiningu getum við haft áhrif á stofnanir, fyrirtæki, stéttarfélög, sveitarfélög og samfélagið allt!

Hér eru fimm lykilkröfur sem er að finna í lokaskjali Nordiskt Forum:

  • Fjárhagsáætlanir ríkis og sveitarfélaga ættu að byggjast á aðferðafræði kynjaðar fjárlagagerðar, og kynjasjónarmið ættu að grundvalla fjárhagsákvarðanir og söfnun tölfræðiupplýsinga. Fjárlög ættu að hafa jafnrétti að leiðarljósi og jafnréttissjónarmið ættu að vera mikilvæg ríkisstofnunum í starfi sínu við að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Norrænu ríkisstjórnirnar ættu að fjármagna félagasamtök kvennahreyfingarinnar og stuðla að aukinni norrænni samvinnu og samstöðu, a.m.k. upp að því marki sem að starf annarra félagasamtaka er styrkt, svo að femínískar hugmyndir geti haft raunáhrif og fullu jafnrétti sé náð í samfélagi okkar.
  • Konur sem flytja til Norðurlandanna ásamt fjölskyldum sínum ætti að vera veitt dvalarleyfi í eigin nafni svo dvalarleyfi þeirra séu ekki bundin karlmönnum. Þolendum ofbeldis skal ekki vera vísað úr landi. Konum sem seldar hafa verið mansali ætti að vera veitt vernd og aðstoð þegar þær geta eða vilja bera vitni fyrir rétti.
  • Norrænu sveitarfélögin, samtök atvinnurekenda og stéttarfélög ættu að starfa að því að skapa atvinnulíf sem tekur tillit til fjölskyldulífs og raunvinnuaðstaðna, og skapa mannsæmandi starfskjör. Réttur til að vinna fullt starf ætti að vera tryggður með lagasetningu eða samþykktum í löndum þar sem algengt er að konur neyðast til að vinna í hlutastarfi. Fylgjast ætti vel með og vinna reglugerðir til að koma í veg fyrir misnotkun á starfsmönnum í ótryggum starfsgreinum þar sem tímabundnar ráðningar og lausráðningar eru algengar.
  • Norræn yfirvöld ættu að starfa að því að konur taki fullan þátt í umhverfisverndarstarfi, sem aktífistar, frumkvöðlar, skipuleggjendur, kennarar, leiðtogar og sendiherrar fyrir sjálfbæra þróun. Styrkir sem veittir eru til umhverfismála ættu alltaf, þar sem þörf er á, að hafa kynjasjónarmið að leiðarljósi.

Hægt er að lesa lokaniðurstöður ráðstefnunnar og kröfurnar á sænsku með því að smella hér.

Hægt er að lesa kröfurnar 63 í enskri þýðingu með því að smella hér.

 

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?