Lögreglufélag Eyjafjarðar ákvað á félagsfundi sínum í dag að gefa bæði Sjúkraliðafélaginu og SFR 100.000 krónur hvoru í verkfallssjóð komi til verkfalls félaganna 15. október.
SFR og SLFÍ hafa ásamt Landsambandi lögreglumanna verið í samfloti í kjaraviðræðum við ríkið og hafa fyrrnefndu félögin boðað verkfall hafi samningar ekki tekist fyrir 15. október næstkomandi. Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt og segir í tilkynningu frá Lögreglufélagi Eyjafjarðar að styrkurinn sé hugsaður sem stuðningur komi til verkfalls félaganna.
Félagsfundurinn var haldinn á Akureyri fyrr í dag og var vel sóttur af lögreglumönnum frá Eyjafjarðarsvæðinu, sem og frá lögreglunni á Blönduósi, Sauðárkróki og Húsavík.