Kvennafrí 2016 - Kjarajafnrétti strax!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Austurvelli, kl. 15:15 undir kjörorðinu KJARAJAFNRÉTTI STRAX! Að átakinu standa samtök launafólks og samtök kvenna.

Meðal atvinnutekjur kvenna eru 70,3% af meðal atvinnutekjum karla. Konur eru því með 29,7% lægri meðaltal atvinnutekna. Samkvæmt því eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum eftir 5 klukkustundir og 38 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:38.

Þann 24. október árið 1975 lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Árið 2005 héldum við upp á kvennafrídaginn í annað sinn og konur gengu í tugþúsunda talið útaf vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Nú göngum við út klukkan 14:38. Við höfum grætt hálftíma á ellefu árum. Tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með þessu áframhaldi þurfum við að bíða í 52 ár eftir að hafa sömu laun og sömu kjör og karlar, til ársins 2068! Það er óásættanlegt!

Fylgstu með á kvennafri.is og facebook.com/kvennafri. Taktu þátt í samræðunum á Twitter undir myllumerkinu #kvennafrí og #jöfnkjör, og fylgdu okkur á @kvennafri.

Saga Kvennafrídagsins

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Þær söfnuðust saman og sýndu svo eftir var tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag.

Konur héldu upp á kvennafrídaginn árið 1985 með því að opna Kvennasmiðju dagana 24. – 31. október til að vekja athygli á vinnuframlagi og launakjörum kvenna. Árið 2005 sýndu konur samstöðu og lögðu tugþúsundir niður störf kl. 14:08 og fylltu miðborgina. Árið 2010 gengu konur út kl. 14:25 mánudaginn 25. október undir kjörorðunum „Já, ég þori, get og vil“.

Konur á Íslandi hafa sannarlega sýnt svo eftir er tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið.

Að fundinum standa samtök launafólks og samtök kvenna: Alþýðusamband Íslands, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Aflið, Bandalag kvenna í Reykjavík, Bríet – félag ungra feminista, Delta Kappa Gamma, Druslubækur og doðrantar, Druslugangan, Dziewuchy Dziewuchom Islandia – Konur konum Ísland, Í kjölfar Bríetar, Jafnréttisfélag Háskólans í Reykjavík, Femínistafélag Háskóla Íslands, Femínistafélag Íslands, Félag kvenna í atvinnulífinu, Kítón – Konur í tónlist, Knúz.is, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Samfylkingarinnar, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamband Framsóknarkvenna, Landssamband Sjálfstæðiskvenna, Rótin, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Samtökin ’78, Soroptimistasamband Íslands, Sólstafir, Stígamót, Tabú, UNWomen, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi og Zontasamband Íslands.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?