Kjölur skrifar undir – SFK til sáttasemjara

Starfsmannafélag Kópavogsbæjar hefur vísað kjaradeilu sinni við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga til ríkissáttasemjara. Þá hafa Kjölur, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi framlengt kjarasamninga sína.

 

Kjarasamningar framlengdir til árs

Fyrr í vikunni hafði BSRB náð samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um sameiginleg mál aðildarfélaga sinna í tengslum við nýja kjarasamninga. Þá höfðu þau bæjarstarfsmannafélög sem leitt hafa kjaraviðræður við samninganefnd Sambandsins náð saman um efnisatriði nýrra kjarasamninga og launaliði. Í kjölfarið hafa nokkur af bæjarstarfsmannafélögunum innan BSRB skrifað undir nýja kjarasamninga.

Samningarnir taka gildi frá 1. maí sl. og ná fram til 30. apríl 2015. Helstu atriði eru hækkun grunnlauna og persónuuppbótar á samningstímanum. Grunnhækkun verður 9.750 kr. frá 1. maí 2014.

 

St. Kópavogs vísar til sáttasemjara

Seinnipart fimmtudags stóð til að undirrita kjarasamninga fyrir Starfsmannafélag Kópavogs (SFK) á skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í fréttatilkynningu frá SFK segir að við undirritunina hafi sviðsstjóri kjarasviðs Sambandsins upplýst að Kópavogsbær hefði farið fram á að eitt ákvæði í kjarasamningi SFK yrði ekki lengur í gildi á nýja samningstímanum.

Þar sem í raun var um framlengingu á eldri kjarasamningi að ræða lítur stjórn SFK svo á að ákvæðið sé í fullu gildi enda hafi Kópavogsbær ekki sagt ákvæðinu sérstaklega upp. Engar viðræður um þetta atriði höfðu farið í samningaviðræðum og ekkert var um uppsögn þess í hinu nýja samkomulagi um framlengingu kjarasamnings.

SFK mat það svo að ekki væri hægt að undirrita nýja samninga við svo búið. Í framhaldi lagði SFK til að bæta inn í samninginn bókun um að ákvæði eldri samningsins giltu áfram. Kópavogsbær var ekki tilbúinn að verða við því og í ljósi þess vísaði SFK kjaradeilu sinni  til ríkissáttasemjara.

Fréttatilkynning-Starfsmannafélag Kópavogs.pdf


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?