Heildarendurskoðun framhaldsfræðslu til umræðu

Félags- og vinnumarkaðsráðherra stóð fyrir velheppnaðri vinnustofu um framhaldsfræðslu á Nilton Reykjavík Nordica í morgun. Á vinnustofuna, sem var með þjóðfundarformi, voru boðaðir fulltrúar allra þeirra sem koma að framhaldsfræðslu.

Framhaldsfræðslu er ætlað að veita fólki með stutta skólagöngu ný tækifæri til náms og starfa og markmið vinnustofunnar var að efna til umræðu meðal fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, stofnana, félagasamtaka, fræðsluaðila og ekki sýst notendanna sjálfra sem hafa mikilvægustu innsýnina í kerfið og hvernig best er að móta það til framtíðar.

Fulltrúar BSRB og starfsmenntasjóða BSRB á fundinum voru Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags, Fríða Rós Valdimarsdóttir, sérfræðingur í fræðslumálum hjá BSRB, Karl Rúnar Þórsson, formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og Ragnhildur Bolladóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Sjúkraliðafélagi Íslands.

Starfshópur á vegum félags og vinnumarkaðsráðherra um heildarendurskoðun framhaldsfræðslunnar mun vinna áfram með niðurstöður dagsins til að meta stöðuna, móta stefnu í málaflokknum og endurskoða lög um framhaldsfræðslu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?