Sameiginlega samninganefnd bæjarstarfsmannafélaganna innan BSRB hefur undanfarið setið á samningafundum ásamt samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Hægt hefur þokast og er m.a. beðið eftir sameiginlegri vinnu svonefnd SALEK-hóps sem fjallar um mögulegar leiðir til að bæta kjarasamningagerðina og finna sameiginlegar lausnir fyrir þá hópa sem enn eiga eftir að semja og þá sem þegar hafa klárað sína samninga.
Vegna þessa skrifuðu samninganefndir bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB og samninganefnd Sambandsins undir samkomulag þar sem kemur fram að dragist kjaraviðræður fram í október mun gildistími hins nýja samkomulags vera frá 1. maí 2015.
Þar fyrir utan hefur samninganefnd bæjarstarfsmannafélagana verið að skoða ýmsar leiðir til að ná fram sambærilegum hækkunum og gerðardómur úrskurðaði félögum í BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Nokkrar útfærslur hafa verið skoðaðar en fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa ekki fengist til að tjá sig um leiðir til að bæta launaliðinn að svo stöddu.
Fulltrúar munu hittast aftur á mánudaginn nk. og halda áfram viðræðum sínum.