Hlutfallið sem sjúklingar greiða af öllum almennum lyfjum hefur hækkað undanfarinn rúman áratug. Árið 2016 var hlutfallið 42 prósent, samanborið við 36 prósent árið 2004. Þetta kom fram í máli Guðrúnar I. Gylfadóttur, formanns Lyfjagreiðslunefndar, þegar hún kom á fund nefndar BSRB um velferðarmál á fimmtudaginn.
Á fundinum fór Guðrún almennt yfir greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfjakaupa. Hún sagði í stuttu máli frá því hvernig kerfið virkar og hvernig Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar hámarksverð lyfja byggt á meðalverði á Norðurlöndunum. Þetta þýðir að lyfjaverð á Íslandi er almennt svipað og á Norðurlöndunum.
Guðrún fór einnig yfir hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga er mest hjá þeim sem þurfa lítið af lyfjum en svo dregur úr kostnaðarþátttöku sjúklinga eftir því sem þeir þurfa meiri lyf. Að hámarki greiða sjúklingar 62 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili.
Líflegar umræður spunnust á fundi nefndarinnar að loknu erindi Guðrúnar þar sem meðal annars var rætt um kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og ýmis mál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum tengt lyfjakostnaði.
Hægt er að skoða glærur sem Guðrún notaðist við á fundinum með því að smella hér.