Formaður BSRB var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær um eitt helsta stefnumál BSRB, styttingu vinnuvikunnar. Verkefnið hefur verið á stefnuskrá bandalagsins til fjölda ára þar sem félagsmenn hafa lagt mikla áherslu á að þetta baráttumál hafi forgang umfram aðrar kjarabætur.
Formaður BSRB sagðist í viðtalinu vonast til þess að þetta væri eitt af fyrstu skrefunum í endurskipulagningu íslensks vinnumarkaðar.
„Við sjáum kostina fyrst og fremst við að reyna að innleiða fjölskylduvænna samfélag, þannig að fólk hafi virkilega tíma og tækifæri til þess að sinna fjölskyldunni sinni betur heldur en með löngum vinnudegi,“ sagði Elín Björg í kvöldfréttum.
Tilefni viðtalsins er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar á tveimur vinnustöðum sveitarfélagsins en fulltrúi BSRB, Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri bandalagsins, á sæti í stýrihópi verkefnsins ásamt þeim Sóleyju Tómasdóttur og Magnúsi Már Guðmundssyni og Halldóri Halldórssyni borgarfulltrúum. Elín Björg segir það „ánægjulega sem er að gerast núna er að það eru fleiri að taka þetta verkefni í fangið og við eigum sannarlega von á að sjá innan skamms áfanga í því að stytta vinnuvikuna.“
Viðtalið má sjá hér.