Ekkert ákveðið varðandi breytingar á lífeyriskerfinu

Undanfarið hafa reglulega verið sagðar fréttir af því í fjölmiðlum að gera eigi breytingar á lífeyriskerfinu og m.a. hækka lífeyristökualdur. Rétt er að taka fram að ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum og slíkar aðgerðir yrðu aðeins hluti af viðmeiri breytingum á lífeyriskerfi landsmanna.

Frá 2009 hefur verið unnið að breytingum á lífeyriskerfi landsins sem miðar að samræmingu réttinda. Heildarsamtök opinberra starfsmanna hafa tekið þátt í þeirri vinnu enda miklir hagsmunir í húfi. Það er skýr krafa BSRB að ef jafna á lífeyrisréttindi á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins þurfi laun opinberra starfsmanna að hækka til samræmis.

Helstu tillögur að samræmingu lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði eru hækkun iðgjalda á almennum vinnumarkaði til samræmingar iðgjalda á opinberum vinnumarkaði. Jafnframt hefur verið rætt að opinberu sjóðirnir taki upp aldurstengt ávinnslukerfi í stað jafnrar réttindaávinnslu, enda er sambærileg réttindaávinnsla forsenda eðlilegs flæðis starfsfólks milli vinnumarkaða. Sömuleiðis verði lífeyrisaldur opinberra starfsmanna hækkaður úr 65 árum í 67 ár til samræmis við lífeyrisaldur annarra á vinnumarkaði. Þar sem lífslíkur munu halda áfram að aukast næstu áratugina þarf að tryggja að kerfið leiðrétti sig sjálft og lífeyrisaldur taki breytingum í samræmi við breyttar lífslíkur.

Hins vegar er það áréttað að þetta eru aðeins atriði sem verið hafa til umræðu og ekkert hefur enn verið ákveðið í þessum efnum.

„BSRB mun ekki samþykkja neinar breytingar á lífeyriskjörum opinberra starfsmanna nema tryggt sé að ekki verði hróflað við þegar áunnum réttindum. BSRB tekur þátt í vinnunni við að búa til samræmt lífeyriskerfi til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og vilji er til þess innan bandalagsins að ná víðtækri sátt um lífeyriskerfið. Heildarhagsmunir launafólks alls, t.d. þeirra sem færast á milli markaða, eru miklir og því verður aldrei sátt um eitt lífeyriskerfi nema að laun á almennum og opinberum vinnumarkaði verið sambærileg. Það er því skýr krafa BSRB að komi til jöfnunar lífeyrisréttinda þarf að bæta opinberum starfsmönnum það upp í launum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?