Einkarekstur leysir engan vanda

BSRB mótmælti harðlega áformum heilbrigðisráðherra um að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu með því að bjóða út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Nú virðast meira að segja læknar sem töluðu fyrir aukinni einkavæðingu vera farnir að átta sig á því að vandi heilsugæslunnar snýst um hættulega undirfjármögnun til margra ára, ekki reskstrarformið.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá í gær og í dag höfnuðu Ríkiskaup einu tilboði af þremur sem bárust í rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í frétt blaðsins er haft eftir Teiti Guðmundssyni, sem er í forsvari fyrir Heilsuvernd, sem bauð í tvær stöðvar en fékk aðeins aðra. Hann segist þeirrar skoðunar að greiðsla ríkisins sé of lág og segir það skýra lítinn áhuga heimilislækna á að taka þátt í útboðinu.

Heilsugæslan í fjársvelti
Það er í raun litlu við það að bæta. BSRB hefur ítrekað bent á að heilbrigðisyfirvöld hafa haldið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í viðvarandi fjársvelti. Þá var bent á að heilbrigðisráðherra ætlaði ekki að láta aukna fjármuni fylgja nýju heilsugæslustöðvunum.

Eitt af því sem læknar sem hlynntir eru einkarekstri á heilsugæslustöðvum bentu á var að einkareknar stöðvar myndu laða að sér lækna sem nú búa erlendis en gætu hugsað sér að flytja heim. Í frétt Fréttablaðsins í dag er bent á að það eru þvert á móti læknar sem í dag starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem ætla að flytja sig um set á einkavæddu stöðvarnar. Það er vandséð að það verði til að bæta þjónustu við sjúklinga.

Ekki of seint að hætta við
BSRB hefur gagnrýnt harðlega að heilbrigðisráðherra skuli upp á sitt einsdæmi geta tekið ákvörðun um að auka verulega einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu án þess að bera það undir löggjafarvaldið. Það er ekki of seint að snúa af þeirri braut. Rúmlega 80% landsmanna vilja að heilbrigðiskerfið sé rekið fyrst og fremst af hinu opinbera. Stjórnmálamenn ættu að hlusta á vilja þjóðarinnar í þessu máli og hætta tafarlaust við þetta misheppnaða útspil um einkavæðingu heilsugæslustöðva.

Eins og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í opinberri stjórnsýslu við HÍ, benti á í erindi sínu á málþingi BSRB og ASÍ um heilbrigðismál er það oft auðvelt að einkavæða en erfitt að vinda ofan af einkavæðingunni þó ljóst sé að hún virkar illa. Þess vegna ættu stjórnvöld að hugsa sig vandlega um og hætta við áform um aukinn einkarekstur í heilsugæslunni áður en það er um seinann.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?