Dagur gegn einelti

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Dagurinn verður haldinn hátíðlegur í þriðja sinn föstudaginn 8. nóvember næstkomandi og er markmiðið með deginum  að vekja sérstaka athygli á málefninu og hversu alvarlegt einelti er. Í tengslum við baráttudaginn 2011 undirituðu fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, félagasamtaka og opinberra stofnana þjóðarsáttmála gegn einelti og lýstu þar með vilja sinum til að leggja þessu málefni lið. Sáttmálinn er því  grunnur að frekari vinnu þeirra sem undirrituðu hann í Höfða 2011. Hvatt er eindregið til þess að sem flestir undirriti sáttmálann og sýni þar með hug sinn í verki. 

Stjórnvöld hvetja skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að nýta 8. nóvember til að hugleiða hvernig hægt er að stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla og beina athyglinni að því að koma í veg fyrir og uppræta það þjóðarböl sem einelti er. Í ár verður sjónum beint að skólasamfélaginu og þá sérstaklega framhaldsskólum.

Að venju mun verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti standa fyrir dagskrá í tilefni dagsins. Í ár fer dagskráin fram í Verslunarskóla Íslands milli kl. 13 og 16. Allir aðilar skólasamfélagsins eru hvattir til að mæta og aðgangur er ókeypis.

Dagskrá

  • Hljóðgerningur: Bjöllur, klukkur og flautur óma um allt land.
  • Sigríður Thorlacius, söngkona flytur nokkur lög ásamt undirleikara.
  • Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri menntamála í mennta- og menningar­mál­a­ráðuneytinu setur dagskrána.
  • Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla: Ekkert hatur – orðum fylgir ábyrgð.
  • Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson, frumsýna myndina: Saga Páls Óskars.
  • Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson: Þolandi & gerandi frá þeirra sjónarhorni.
  • Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra flytur ávarp og veitir viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins.
  • Viðurkenningarhafi flytur ávarp.
  • Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur: Fagráð eineltismála í grunnskólum.
  • Nemendur Verslunarskóla Íslands – tónlistaratriði.
  • Kaffi og kökur.
  • Dagskrárlok

Tökum höndum saman

Í tilefni dagsins munu bjöllur, klukkur og skipsflautur óma í sjö mínútur um allt land frá kl. 13:00- 13:07, ein mínúta fyrir hvern dag án eineltis. Skólasamfélagið, vinnustaðir og samfélagið í heild eru hvött til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember baráttunni gegn einelti með einhverjum hætti. Sýnum samstöðu í verki, skrifum undir þjóðarsáttmálann og hringjum bjöllum kl.13:00.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?