BSRB auglýsir starf kynningarfulltrúa

Umsjón með samfélagsmiðlum er eitt af verkefnum kynningarfulltrúa BSRB.

BSRB hefur auglýst starf kynningarfulltrúa laust til umsóknar. Um er að ræða fjölbreytt og krefjandi starf sem reynir á frumkvæði og sjálfstæði í áhugaverðum verkefnum. Þetta er starf fyrir aðila sem brennur fyrir þjóðfélagsumræðuna og kröfuna um réttlátara samfélag.

Kynningarfulltrúi BSRB ber ábyrgð á kynningarmálum bandalagsins, stuðlar að sýnileika þess í opinberri umræðu, heldur utan um ritstjórn á öllu útgefnu efni og kemur að skipulagningu viðburða. Kynningarfulltrúi heyrir undir framkvæmdastjóra BSRB en vinnur náið með formanni og öðrum aðilum sem taka þátt í þjóðfélagsumræðunni fyrir hönd bandalagsins.

Kynningarfulltrúi BSRB ber ábyrgð á öllu kynningarefni og öðru útgefnu efni ásamt því að hafa umsjón með fjölmiðlasamskiptum og svara fyrirspurnum fjölmiðla. Þá sinnir hann ráðgjöf um miðlun upplýsinga og fjölmiðlasamskipti, vaktar fréttir og hefur umsjón með samfélagsmiðlum bandalagsins.

Umsóknarfrestur er til 6. febrúar næstkomandi og er sótt um starfið í gegnum Alfreð, þar sem jafnframt má finna nánari upplýsingar um verkefni og ábyrgð ásamt menntunar- og hæfniskröfum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?