Bjóða starfsfólki íslenskukennslu á vinnutíma

Isavia býður nú starfsfólki sem hefur annað tungumál en íslensku að móðurmáli að sækja íslenskunámskeið á vinnutíma. BSRB fagnar þessu framtaki enda ein af þeim kröfum sem settar eru fram í stefnu bandalagsins um menntamál.

Starfsfólki Isavia býðst að sækja íslenskunámskeið utan vinnutíma eða á vinnutíma þeim að kostnaðarlausu. Fyrsta námskeiðið hófst þann 11. október síðastliðinn og stendur í átta vikur. Í fyrsta námshópnum eru þrettán einstaklingar af fimm þjóðernum sem koma úr mismunandi deildum innan Isavia samstæðunnar.

Í stefnu BSRB um menntamál er lögð áhersla á starfsfólki af erlendum uppruna sé boðin góð kennsla og þjálfun í íslensku, þeim að kostnaðarlausu, þeim sé gert kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og að þeir fái þjálfun í íslensku á vinnustað, án launaskerðingar.

„Við hjá BSRB fögnum þessu enda er tungumálið mikilvægur liður í inngildingu og hvetjum aðra atvinnurekendur til að fylgja eftir góðu fordæmi Isavia“, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

BSRB leggur áherslu á að félagsfólk aðildarfélaganna geti þróað starfshæfni sína og menntað sig þannig að þeir verði eftirsóknarverðir á vinnumarkaði alla sína starfsævi. „Störfin þróast og samfélagið með svo lykillinn að því að við aðlögumst öll sem best að breytingum á vinnumarkaði framtíðarinnar og loftslagsbreytingum er að tryggja stöðuga fræðslu og menntun í gegnum starfsævina. Í ljósi mikillar aukningar á starfsfólki af erlendum uppruna hér á landi er einnig fræðsla og aðgerðir tengt fjölbreytileika, jafnrétti og inngildingu forsenda góðrar og heilbrigðrar vinnustaðamenningar“, segir Sonja.

Í menntastefnu BSRB segir jafnframt að nauðsynlegt sé að tryggja möguleika félagsfólks til að sækja sér starfs- og símenntun samhliða störfum sínum án launaskerðingar. BSRB vilji beita sér fyrir því að námsleyfi verði sjálfsagður réttur félagsmanna aðildarfélaga BSRB og slík réttindi þurfi að vera tryggð með kjarasamningum og samræmd á milli félaga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?