Bjarg íbúðafélag lækkar leiguna hjá stórum hópi

Yfirlýsing um fjármögnun var undirrituð fyrir framan íbúðakjarna Bjargs við Móaveg í Grafarvogi.

Húsaleigan hjá stórum hópi leigjenda hjá Bjargi íbúðafélagi mun lækka um næstu mánaðarmót í kjölfar þess að forsvarsmenn félagsins undirrituðu viljayfirlýsingu um fjármögnun við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um miðjan júlí.

Með þessari hagstæðu langtímafjármögnun verður hægt að lækka leigu hjá fjölda leigjenda og nemur lækkunin allt að 35 þúsund krónum á mánuði, að því er fram kemur í frétt á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Um er að ræða hagstæða nýja langtímafjármögnun á lánum Bjargs hjá stofnuninni í kjölfar þess að niðurstaða náðist í ríkisstjórn um framtíðarfyrirkomulag lánveitinga stofnunarinnar á samfélagslegum forsendum til byggingar og kaupa á íbúðum.

Bjarg var stofnað af BSRB og ASÍ árið 2016 með það að markmiði að byggja og reka leiguíbúðir fyrir tekjulægstu félagsmenn heildarsamtakanna tveggja, án hagnaðarsjónarmiða.

„Svona virkar óhagnaðardrifið leigufélag eins og okkar, ef okkar kostnaður lækkar þá njóta leigutakarnir þess óháð því hvaða upphæð kemur fram í leigusamningnum,“ sagði Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar.

Undirritunin fór fram við húsnæði Bjargs við Móaveg í Grafarvogi, en þar var einmitt fyrsta íbúð félagins afhent fyrir tveimur árum. Auk Björns undirrituðu yfirlýsinguna Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Nánari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag má finna á vef félagsins. Þar er einnig hægt að kanna hvort íbúðir Bjargs standa til boða og sækja um íbúð.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?