Bjarg íbúðafélag, sem er í eigu BSRB og ASÍ, mun reisa 60 íbúðir til viðbótar þær 260 sem þegar voru í undirbúningi í Reykjavík og Hafnarfirði. Breytingar á byggingarreglugerð hafa orðið þess valdandi að hægt var að fjölga íbúðum á lóðunum.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að íbúðirnar verði við Móaveg í Grafarvogi, Urðarbrunn í Úlfarsárdal, á Kirkjusandi og við Hraunskarð í Hafnarfirði.
BSRB og ASÍ stofnuðu Bjarg íbúðafélag til að bregðast við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði og neikvæðum áhrifum hennar á félagsmenn bandalaganna. Félagið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og mun byggja fjölda íbúða á næstu árum og leiga út til félagsmanna með lágar tekjur.
Vegna breytinga á byggingarreglugerð getur félagið fjölgað þeim íbúðum sem áformað var að reisa á lóðunum fjórum. Breytingarnar hafa þó í för með sér einhverja seinkun þar sem uppfæra þarf hönnun íbúðanna og breyta deiliskipulagi lóðanna. Breyting á deiliskipulagi mun taka um þrjá mánuði eftir að hönnun lýkur svo tafirnar verða ekki miklar.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að vonir standi til þess að framkvæmdir á lóðunum geti hafist sem fyrst. Gangi áætlanir eftir verða fyrstu íbúðirnar teknar í notkun í byrjun árs 2019.