Bæta vaktavinnustað í tilraunaverkefni

Valinn verður einn vaktavinnustaður hjá ríkinu til að taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar.

Velferðarráðuneytið hefur auglýst eftir umsóknum frá vaktavinnustöðum hjá ríkinu um þátttöku í tilraunaverkefni BSRB og ríkisins og styttingu vinutíma. Markmið verkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi vinnustaðar.

Fram kemur á vef ráðuneytisins að valinn verði einn vaktavinnustaður til þátttöku í verkefninu. Vaktavinnustaðurinn verður fimmti vinnustaðurinn hjá ríkinu sem tekur þátt í tilraunaverkefninu, en Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá hófu þátttöku í verkefninu þann 1. apríl 2017.

Vinnustundum hjá þeim vinnustað sem bætist inn í verkefnið verður að jafnaði fækkað úr 40 stundum á viku í 36 án þess að til launaskerðingar komi. Tilraun um styttingu vinnutíma mun standa yfir 9 mánuði, frá 1. september 2018 til 1. júní 2019, á þeim vaktavinnustað er valinn verður til þátttöku.

Sækja þarf um þátttöku til velferðarráðuneytisins fyrir 22. júní næstkomandi og þurfa vinnustaðirnir að uppfylla ýmis skilyrði sem fram koma á vef Velferðarráðuneytisins. Þannig þurfa stöðugildin að vera 20 eða fleiri, 30 prósent starfsmanna þurfa að vera í aðildarfélögum BSRB og meirihluti þarf að vera í 70 prósenta starfshlutfalli eða meira.

Í umsóknunum þarf að koma með hugmyndir að útfærslu styttingar vinnutíma ásamt því hvernig hægt sé að meta áhrif styttingar á vellíðan starfsfólks, starfsanda og þá þjónustu sem vinnustaðurinn veitir með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Nánari upplýsingar má finna í auglýsingu velferðarráðuneytisins.

BSRB hefur lengi barist fyrir styttingu vinnuvikunnar. Lestu meira hér um vinnuna, tilraunaverkefnin tvö sem nú eru í gangi og fleira.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?